Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn á köldum vetrardegi. Því fylgir undarleg blanda af samviskubiti og létti, en sú tilfinning víkur óforvarandis fyrir vosbúð og hinum almenna óþrifnaði sem slíkum gjörningi fylgir.
Íslenskir launþegar hafa löngum stundað þessa iðju. Ítrekað hefur verið samið um ríflegar launahækkanir eftir mikil átök, en þær kjarabætur hafa verið gleyptar með verðhækkunum skömmu seinna.
Íslenskur vinnumarkaður er í öngstræti. Hann er svo ósveigjanlegur að það kallar yfir þjóðina ýktar hagsveiflur, þar sem verðgildi krónunnar er étið upp, nauðsynjavörur verða dýrari og hver króna kaupir færri dollara og evrur til að kaupa inn vörur frá útlöndum.
Við þekkjum þetta höfrungahlaup. Ef einn hópur semur fara hinir af stað. Ekki er hægt að hækka kaup hinna verst stöddu hlutfallslega, því það þarf að „meta menntun til launa“. Niðurstaðan er kyrrstaða í kjörum, öfgakenndar sveiflur og óvissa í efnahagsmálum.
Verkalýðssamtök hafa ægivald yfir ákveðnum atvinnugreinum. Þau geta stöðvað starfsemi fyrirtækja með einu pennastriki, í krafti einokunarstöðu á vinnumarkaði. Þeim líðst að koma með líkamlegu valdi í veg fyrir að aðrir gangi í störf félagsmanna sem lagt hafa niður störf. Þannig hefur þeim oft tekist að fá fram hækkanir umfram það sem atvinnulífið hefur getað með góðu móti staðið undir án þess að hækka verð.
Þrátt fyrir allt er einokun verkalýðsfélaga ekki lítilmagnanum í vil. Hann er meira að segja stærsta fórnarlamb hennar, því hjá honum fer hærra hlutfall tekna í nauðsynjavörur en hjá hinum tekjuhærri, sem þar að auki hafa meira svigrúm til að verja sig með eignakaupum. Besta kjarabótin felst í því að frelsa íslenskan vinnumarkað og færa ábyrgðina til einstaklinganna, þar sem þeir njóta eigin dugnaðar og þurfa ekki að lúta miðstýringu launa og kjara og hópkaupum á vinnuafli.