Kristinn Jónsson bæjarstjóri Snæfellsbæjar er glöggur maður. Í viðtali við Spegilinn í Ríkisútvarpinu í síðustu viku gagnrýndi hann vinnubrögð atvinnuvegaráðuneytisins við gerð veiðigjaldafrumvarpsins.
Kristinn furðar sig á því að greinagerð frumvarpsins leggi ekkert mat á áhrif hækkunar veiðigjalda á útsvarstekjur sveitarfélaga. Þar sé að finna margar blaðsíður sem fjalla um áhrif skattahækkunarinnar á ríkissjóð en þegar kemur að öðrum áhrifum ríkir þögnin ein. Ráðuneytið leyfir sér að álykta að hækkunin muni sennilega ekki hafa mikil áhrif á útsvarstekjur og fjárfestingar í sjávarútveginum en leggur ekki fram nein gögn þeim ályktunum til stuðnings.
Allir sem hafa grundvallarskilning á lögmálum framboðs og eftirspurnar skilja að skattahækkun líkt og sú sem frumvarpið felur í sér mun hafa mikil efnahagsleg áhrif. Kristinn hefur slíkan skilning. Í viðtalinu við Ríkisútvarpið segir hann:
„Ef að ég þarf að borga meiri skatta til samfélagsins þá hlýtur það augljóslega að verða þannig að ég get eytt minni peningum sjálfur í það sem mig langar að gera, skipta um glugga, kaupa nýja bílskúrshurð, kaupa mér nýjan bíl eða hvað sem það er, ég hef minni ráðstöfunartekjur. Nákvæmlega sama gerist með fyrirtækin í sjávarútvegsbyggðunum“ „Það er eins og þingmenn hafi ekki lesið þetta frumvarp, þetta er fyrst og fremst skattur. Þetta er ekki leiðrétting eða neitt annað, það er tekið fram í textanum við frumvarpið og það er ítrekað að þetta er skattur. Þegar þú leggur skatt á einhvern þá hlýtur það að þýða að hann hefur minni ráðstöfunartekjur og það þýðir, ef við horfum bara á samfélagið hér í Snæfellsbæ, ef þú tekur út meiri pening þá eru minni umsvif, sem hlýtur að hafa áhrif á samfélagið sjálft. Það er það sem ég óttast, að það verði minni umsvif hjá píparanum, rafvirkjanum, smiðnum, hvern sem er svo ég taki bara einhver dæmi. Ég hefði viljað sjá þau áhrif á útsvarstekjurnar hjá sveitarfélaginu og ég skil ekki af hverju þau vilja ekki sýna okkur fram á með einhverjum útreikningum.“
Þessi framsetning er skýr og skorinorð. Þess vegna er óskiljanlegt að embættismenn í atvinnuvegaráðuneytinu segi fullum fetum að sú hækkun kostnaðar við veiðar sem lögfesting frumvarpsins hefur í för með sér muni ekki hafa nein áhrif á aðrar rekstrarákvarðanir fyrirtækja og hvað þá á fjárfestingar og þar af leiðandi á útsvarstekjur sveitarfélaga. Þetta eru óboðleg vinnubrögð.
Stjórnarliðar hafa stært sig af því að breytingar á frumvarpinu, sem meðal annars sneru að hækkun frítekjumarks og átti að koma minni útgerðum vel, frá því að það var lagt fram í samráðsgátt komi til móts við þá gagnrýni sem sveitarfélög á landsbyggðinni hafa sett fram á áform ríkisstjórnarinnar. Þær breytingar eru tálsýn ein. Þannig hefur stjórn Vestfjarðastofu lýst yfir þungum áhyggjum af frumvarpi ríkisstjórnarinnar um hækkun á veiðigjaldi. Hún telur ljóst að áhrifin af hækkun veiðigjalda verði „mjög íþyngjandi og komi afar hart niður á litlum og meðalstórum bolfiskútgerðum“.
Í ályktun stjórnarinnar, er bent á að á Vestfjörðum séu eingöngu litlar og meðalstórar útgerðir í bolfiskveiðum og vinnslu. „Þrátt fyrir að frítekjumark hafi verið hækkað, þá verður sú hækkun étin upp að miklu leyti upp vegna aukins þunga í gjaldtöku á þorsk og ýsu í nýjustu breytingum frumvarpsins.“
Að óbreyttu verður samþykkt þessa frumvarps íslensku efnahagslífi ákaflega dýrkeypt.
Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist fyrst í blaðinu sem kom út 15. maí 2025.