Í Viðskiptablaðinu í gær fjallaði Óðinn um misheppnað tilraunaverkefni ríkisins við að stytta vinnutíma ríkisstarfsmanna.

Forsenda þess var að þjónusta myndi ekki versna og kostnaður aukast, en könnun sýnir einmitt að hún versnaði og 77% stofnanir styttu vinnutíma að fullu um fjóra klukkustundir, þvert á ráðleggingar.

Óðinn fjallaði einnig um rekstur Stundarinnar og Kjarnans, en þessir miðlar hafa ákveðið að sameinast.

Hér er stutt brot úr Óðni en áskrifendur geta lesið Óðinn í fullri lengd hér.

Sameining Kjarnans og Stundarinnar

Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur sýnt sameiningu Kjarnans og Stundarinnar mikinn áhuga, enda verið í nánu samstarfi við miðlana.

Það kemur ekki á óvart að í yfirlýsingu miðlanna tveggja vegna sameiningarinnar sé reynt að færa þá tvo upp á hærri stall en efni standa til.

Eitt af grunn­mark­miðum nýs fjöl­mið­ils er sjálf­bær rekstur til lengri tíma sem stendur undir sjálf­stæði rit­stjórn­ar. Rekst­ur­inn á þó í sam­keppni við stærri fjöl­miðla sem hafa fengið við­var­andi tap­rekstur nið­ur­greiddan af fjár­sterkum aðil­um, meðal ann­ars eig­endum útgerða og kvóta.

***

Óðinn skoðaði rekstur beggja fjölmiðla frá upphafi í ljósi þessara digurbarkalegu yfirlýsingar.

Kjarninn hefur verið rekinn samfellt með tapi frá upphafi, utan stofnársins þegar hagnaðurinn var 326 þúsund krónur. Samanlagt tap, á verðlagi hvers árs, er 85 milljónir króna. Núvirt er tapið yfir hundrað milljónir króna. Tap er af rekstri Stundarinnar frá upphafi en þó mun minna en Kjarnans.

Þá er rétt að skoða hver niðurgreiddi tapreksturinn hjá Kjarnanum. Jú. Fjársterkir aðilar. Ekki nóg með það þá var einn stærri hluthafa félagsins erfingi kvótaauðs, en fjölskylda hann hljóp út úr greininni um leið og framsalið, sem var ákveðið að vinstristjórninni 1990, fór að skila hagræðingu.

Að auki er annar af tveimur stærstu hluthöfum Kjarnans í eigu einstaklings sem stóð á Austurvelli, barði í tunnu og mótmælti því að menn geymdu peninga í aflandsfélögum. Svo kom í ljós að sá hinn sami átti félagið M-trade á Tortóla, dótturfélag lúxemborgsks félags, rétt eins og hluthafinn Miðeind sem er hluthafi í Kjarnanum.

Óðinn veltir fyrir sér hvers vegna Þórður Snær sleppti ekki þessari upphafningu í yfirlýsingunni, sem reyndist byggð á sandi.

***

Hlutfallslega miklu meira tap

Tap Kjarnans er gríðarlega mikið miðað við umfang rekstursins. Miklu meira en tap Morgunblaðsins.

Nú ætlar Óðinn ekki að gerast talsmaður helsta samkeppnisaðilans, Morgunblaðsins, en þeir mega eiga það þarna upp í Bláfjöllum, sem þeir kalla Hádegismóa, að þeir voru eini fjölmiðilinn í fyrra sem skilaði hagnaði að teknu tilliti til ríkisstyrkja.

***

Óðinn veltir fyrir sér hvort ekki sé rétt að þetta ágæta fólk á Kjarnanum og Stundinni endurskrifi yfirlýsinguna með þetta í huga.

Óðinn vonar að yfirtaka Stundarinnar á Kjarnanum verði farsæl fyrir nýjan fjölmiðil og honum vegni vel. Eins vonar Óðinn að forsvarsmenn þessa nýja miðils átti sig sem fyrst á því að meðan ríkisstyrkir eru á fjölmiðlum með því fyrirkomu lagi sem nú er, þá er ritstjórnarlegt frelsi þeirra í hættu. Sjálfbær rekstur án ríkisstyrkja er eina leiðin.

Óðinn óskar lesendum Viðskiptablaðsins, sem og vinstrimönnunum, gleðilegra jóla. Megi ríkisreksturinn dragast saman á nýju ári þjóðinni til heilla.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, fimmtudaginn 22. desember 2022.