Allt frá því bankarnir féllu árið 2008 virðist sem kraftur þeirra sem trúa á frelsi einstaklingsins, á frjálsan markað, lægri skatta og minni ríkisafskipti hafi ekki aðeins  orðið fyrir tímabundnu áfalli, heldur varanlegu. Þannig virðast raddir þeirra sem aðhyllast þessi lífsviðhorf vera veikar, og, á stundum, eins og nagandi samviskubit kalli á að þóknast andstæðum viðhorfum, rétt eins og friðkaup muni veita aflausn.

Allt frá því bankarnir féllu árið 2008 virðist sem kraftur þeirra sem trúa á frelsi einstaklingsins, á frjálsan markað, lægri skatta og minni ríkisafskipti hafi ekki aðeins  orðið fyrir tímabundnu áfalli, heldur varanlegu. Þannig virðast raddir þeirra sem aðhyllast þessi lífsviðhorf vera veikar, og, á stundum, eins og nagandi samviskubit kalli á að þóknast andstæðum viðhorfum, rétt eins og friðkaup muni veita aflausn.

Engu máli skiptir að fall bankanna var ekki kapitalismanum að kenna, eða þeim sem aðhyllast frjálshyggju í einhverri mynd. Fall bankanna orsakaðist af alþjóðlegri lausafjárkreppu sem öðru fremur varð af völdum afskipta hins opinbera af lánsfjármörkuðum, regluverki sem skóp einsleitar fjármálastofnanir og áratuga tilraunir seðlabankastjóra til að stýra og stjórna því sem þeir hafa hvorki tök né þekkingu á að stýra. Á Íslandi voru það aðilar í ríkisstjórn, á þingi og í stjórnkerfinu, sem teljast til hægri í stjórnmálum, sem komu því til leiðar að úrræðin við falli bankanna voru með allra skynsamlegasta hætti og byggðu grunninn að skjótri uppbyggingu. Uppbyggingu sem hefði orðið enn skjótari ef ekki hefði komið til ríkisstjórn í upphafi árs 2009 sem virtist reyna að lengja í kreppunni eins og hægt var.

Fyrsta einkenni þessa sérkennilega samviskubits var þegar meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins samþykkti þriðja Icesave samninginn og kom þannig í veg fyrir eigin stórsigur í næstu þingkosningum. Sagan sýndi fljótt hversu arfavitlaust þetta var. Forystumaður sama flokks framlengdi síðan líftíma Más Guðmundssonar í starfi seðlabankastjóri árið 2014 þegar val var á ólíkt hæfari manni með heilbrigðari viðhorf. Aftur hefur sagan sýnt hversu röng þessi ákvörðun var og spillingin og misbeiting valds sem viðgekkst í bankanum undir stjórn Más hefur nú verið skráð í þremur merkum bókum. Þessi tvö dæmi eru hvað verst, en engan veginn þau einu.

Sami forystumaður Sjálfstæðisflokksins hefur nú einnig vakað yfir fjármálum ríkisins síðastliðin sjö ár og á þeim tíma hefur opinberum starfsmönnum fjölgað sem aldrei fyrr, ríkisútgjöld náð nýjum hæðum og ekkert lát á. Loks þegar svo fjármálaráðherratíðinni lýkur þá skal stóll forsætisráðaherra keyptur með látlausri undanlátssemi við eyðslusama og stjórnlynda samstarfsflokka.

Hugsjónasnauðum forystumanni Sjálfstæðisflokksins er ekki einum um að kenna. Þingflokkur sama flokks hefur gert það að hreinni listgrein að skilja á milli þess sem sagt er og gert. Í greinum og ræðum er fjallað um atvinnufrelsi, minna regluverk og lægri skatta, allt mjög skynsamlegt. En þegar kemur að atkvæðagreiðslu á þingi á ekkert af þessu við. Þá eru það stólarnir sem gilda.

Nýjastu friðkaup forystumanna Sjálfstæðisflokksins, svo hanga megi lengur á stólunum, er áætlun í loftslagsmálum upp á eina 150 liði. Umhverfisráðherra, sem hefur starfað undir merkjum Sjálfstæðisflokks, fullyrti á blaðamannafundi þegar áætlunin var kynnt: „Ekkert þegar kemur að þeim málum öðruvísi en það sem er í fjármálaáætlun, en síðan er líka þarna inni ívilnanir, til dæmis fyrir grænar fjárfestingar og svo þekkjum við auðvitað ívilnanir fyrir orkuskipti í bílum og ýmislegt slíkt.”

Léttur yfirlestur sýnir fljótt að nánast hver einasta atriði kostar einhvern eitthvað, þ.e. einstaklinga eða fyrirtæki. Hver trúir því að „ívilnanir” fyrir rafbíla muni enn gilda þegar banna á aðra valkosti strax árið 2028? Og það er svo einfalt að „ívilnanir” borga allir fyrir með einhverjum hætti á endanum. Margir liðir þessarar áætlunar hafa ekkert með vísindi að gera, heldur eru trúarlegs eðlis. Starfsferill þessa ráðherra í Umhverfisráðuneytinu bendir til þess að ráðuneytið hafi stýrt ráðherra, en ekki öfugt. Orkulaus orkuskipti eru hans arfleifð í embætti.

Það er illa fyrir okkur komið þegar lýðræðið hleypir að öfgafullum smáflokkum sem ná að stjórna í gegnum hugsjónalausa stjórnmálamenn sem kenna sig við hægrið, en eru í raun strengjabrúður stjórnlyndra stjórnmálamanna sem telja sig allt vita betur um líf okkar og hagi. Það styttist í kosningar og nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert að selja nema stöðugleika í fjölgun ríkisstarfsmanna, hækkun ríkisútgjalda og auknu regluverki hverjir stíga þá inn og bjóða raunverulegan valkost?

Hverjir þora og eru ekki of hræddir til að berjast og of feitir til að flýja?

Höfundur er formaður Samtaka skattgreiðenda.