Loftslags- og orkumál verða sérstök áhersla nýrrar ríkisstjórnar. Þessari áherslu er fagnað. Það er augljóst að loftslagsvandinn er vandi – og það stór. Það þarf að hafa metnaðarfull markmið, en um leið raunhæf. Markmið eru í sjálfu sér merkingarlaus, ef leiðin að þeim er ekki nægilega vörðuð skýrum aðgerðum. Ef engar eru vörðurnar, verður markmiðið ekki annað en draumur, sem ólíklega rætist.

Á undanförnum árum hafa fyrirtæki í sjávarútvegi, þar með talin fyrirtæki í uppsjávarveiðum, endurnýjað vinnslu, tæki og tól. Ein veigamesta og umhverfisvænasta fjárfestingin hefur verið í rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja, sem ganga þá fyrir rafmagni í stað olíu. Brennsla þeirra á olíu hefur vegna þessa dregist stórkostlega saman og er það vel. Orkuskiptin hafa því verið á fleygiferð, án sérstakrar aðkomu stjórnvalda.

Nú hyggst Landsvirkjun skerða orku til þessara fyrirtækja og flutningsgeta á rafmagni á Norðausturlandi er ekki fullnægjandi. Áætlað er að skerðingin jafngildi að brenna þurfi á milli 20 til 30 þúsund tonnum af olíu til viðbótar. Það lætur nærri að horfið sé tvo áratugi aftur í tímann hvað brennslu þessara verksmiðja varðar á olíu. Þetta er afar óheppilegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Á stjórnvöldum stendur aðallega að tryggja innviði landsins og framleiðslu á grænni orku, þannig að atvinnulífið geti haldið vegferð sinni áfram og lágmarkað notkun á olíu – jafnvel hætt þeirri notkun alfarið til lengri tíma. Miðað við hægfara framgang þessa verkefnis stjórnvalda, verður því miður að spyrja hversu oft í viðbót þurfi að fljúga opinberum erindrekum til Kyoto, Parísar og Glasgow til að lýsa yfir enn bústnari markmiðum um græna framtíð, áður en spýtt verður í lófana í grundvallarverkefnum er snúa að hinu opinbera.

Aðgerðir þurfa að fylgja orðum.

Höfundur er framkvæmdastjóri SFS.