Stjórnendur fyrirtækja þurfa að vera vissir með það hvaða áhrif virðisaukaskattur hefur á rekstur þeirra enda ætti virðisaukaskattur almennt ekki að vera kostnaður fyrirtækja heldur ætti hinn endanlegi neytandi af seldri þjónustu eða vöru þeirra að vera sá sem greiðir virðisaukaskattinn.

Stjórnendur fyrirtækja þurfa að vera vissir með það hvaða áhrif virðisaukaskattur hefur á rekstur þeirra enda ætti virðisaukaskattur almennt ekki að vera kostnaður fyrirtækja heldur ætti hinn endanlegi neytandi af seldri þjónustu eða vöru þeirra að vera sá sem greiðir virðisaukaskattinn.

Regluverkið í kringum virðisaukaskatt er hins vegar í meira lagi flókið auk þess sem framkvæmdin er flækt með fjölbreyttum skráningum á virðisaukaskattskrá, mismunandi skatthlutföllum og ýmsum undanþágum sem eru háðar þröngum túlkunum. Slíkt er til vansa, enda mikilvægt fyrir virðisaukaskattskylda aðila að geta lesið úr regluverkinu og að framkvæmd þess sé skýr og fyrirsjáanleg.

Framkvæmdin verður til hjá Skattinum og virðisaukaskattskyldir aðilar kynnast henni ýmist af eigin raun eða í gegnum ráðgjafa sína. Stundum er einfalt fyrir virðisaukaskattskylda aðila að aðlaga sig að framkvæmdinni en því miður er það ekki alltaf raunin. Það hlýtur að vera samhljómur um að Skatturinn sinni eftirlitshlutverki sínu á sem skilvirkasta máta en um leið þarf meðferð mála bæði að vera samræmd og gagnsæ. Þess vegna er mikilvægt að ný eða breytt framkvæmd, sem byggir á breyttri og þá íþyngjandi túlkunar í stað ívilnandi, hafi ekki óæskileg áhrif sem ganga jafnvel gegn meginreglum og tilgangi virðisaukaskatts.

Lítil skattaþúfa veltir þungu hlassi

Nokkrar nýlegar breytingar á framkvæmd hafa haft veruleg áhrif á fyrirtæki og hafa þannig varpað ljósi á mikilvægi þess að fyrirtæki séu upplýst um slíkar breytingar. Eitt slíkt dæmi er þegar fyrirtæki sem hafa sótt innskatt á röngu virðisaukaskattsnúmeri færa innskattinn yfir á rétt virðisaukaskattsnúmer. Slíkt hefur hingað til verið hægt án fjárhagslegra afleiðinga. Þótt eingöngu sé um að ræða færslu á innskatti á milli virðisaukaskattsnúmera innan sömu kennitölu og því engin skuld við ríkissjóð til staðar, er nú við þessa tilfærslu lagt 10% álag auk dráttarvaxta. Þessi nýja nálgun er að mörgu leyti ámælisverð og óvíst hvort hún standist verði látið reyna á hana, en að óbreyttu er ljóst að mikilvægi þess að færa innskatt á rétt númer hefur aukist umtalsvert.

Árið 2022 breytti Skatturinn einnig skattframkvæmd sem hafði töluverð áhrif á félög sem höfðu með höndum þróunar- eða undirbúningsstarfsemi og voru annað hvort búin að vera með eða ætluðu sér að sækja um fyrirfram skráningu. Skatturinn hóf að hafna slíkum skráningum sem áður höfðu verið samþykktar ef fyrirtæki væru ekki að fjárfesta í varanlegum rekstrarfjármunum á þróunar- eða undirbúningstímabili starfseminnar. Ljóst er að það getur skipt sköpum í nýsköpun og í undirbúningi við nýjan rekstur að félög sitji ekki uppi með aukinn kostnað vegna virðisaukaskatts. Slíkt væri jafnframt ekki í takt við eðli virðisaukaskatts.

Fyrir þessa breytingu hafði Skatturinn samþykkt fyrirfram skráningu vegna þróunar– eða undirbúningsstarfsemi ef fyrirtæki gátu sýnt fram á að reksturinn myndi skila rekstrarhagnaði á síðari uppgjörstímabilum og að starfsemin væri fjármögnuð. Eftir breytinguna þurftu fyrirtæki, gátu þau ekki sýnt fram á fjárfestingu í varanlegum rekstrarfjármunum, að leggja fram bankaábyrgð með tilheyrandi kostnaði, vegna þess innskatts sem þau ætluðu sér að fá endurgreiddan.

Ný framkvæmd ekki alltaf góð og gild

Þessi breytta framkvæmd hafði töluverð neikvæð áhrif á þá sem voru í þróunar- eða undirbúningsstarfsemi sem þurftu að leggja í umfangsmikinn kostnað áður en rekstrartekjur byrjuðu að skila sér. Yfirskattanefnd var sem betur fer ekki sammála þessari þröngu túlkun Skattsins eins og fram kom í nýlegum úrskurði nefndarinnar. Eftir að hafa þurft að þola tvö ár af íþyngjandi breyttri framkvæmd Skattsins, þá geta fyrirtæki í þróunar- og undirbúningsstarfsemi nú fengið fyrirfram skráningar á ný, án mismunar eftir því í hverju kostnaður þeirra felst.

Af þessum tveimur dæmum er ljóst að stíga þarf mjög varlega til jarðar þegar breyta á framkvæmd sem getur haft töluvert íþyngjandi og kostnaðarsöm áhrif fyrir fyrirtæki. Dæmin eru því miður fleiri og því mikilvægt fyrir stjórnendur fyrirtækja að vera vel vakandi til að fyrirbyggja ófyrirséðan kostnað, hvort sem um er að ræða innskatt sem ekki er hægt að fá greiddan eða álag og dráttavexti þegar einfaldar leiðréttingar eiga sér stað.

Höfundur er lögfræðingur og liðstjóri hjá Deloitte Legal.