Tý þykir fátt skemmtilegra en að lesa skýrslur skrifaðar af ríkisstarfsmönnum og hefur yfirgripsmikla á þekkingu á þessum afkima bókmenntanna. Í krafti hennar fór einhenti ærslabelgurinn Týr að bera saman nýútkomna skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á Íslandsbanka saman við skýrslu stofnunarinnar um starfsemi Lindarvols. Sá samanburður „vakti athygli“ svo vísað sé til orðfæris Ríkisendurskoðanda.

Að mörgu leyti eru niðurstöður beggja úttekta samanburðarhæf. Ríkisendurskoðun gerði engar athugasemdir við starfsemi Lindarhvols í skýrslu sinni og að sama skapi er niðurstaða stofnunarinnar að niðurstaða söluferils á hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars hafi verið ríkissjóði hagfelld.

En þegar málið er skoðað ofan í kjölinn sést að grundvallarmunur er úttektunum tveimur. Ýmis álitamál voru uppi um rekstur Lindarhvols. Má í því samhengi nefna álitamál um starfstíma félagsins en það var stofnað í apríl 2016 og slit þess boðað í febrúar 2018. Þá vakti útboð félagsins á Klakka upp spurningar sem og ráðningu Íslaga til ráðgjafar við störf félagsins. Sem fyrr segir var það niðurstaða Ríkisendurskoðunar að ekkert væri við þetta athuga og eðlilega staðið af öllum málum.

En það kveður við annan tón í skýrslunni um Íslandsbanka. Meginniðurstaðan er að útboðið hafi verið ríkissjóði hagfelldur en síðan er restin af skýrslunni sparðatíningur sem er ætlað að grafa undan meginniðurstöðunni. Þær athugasemdir standa á veikum grunni svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Við lesturinn læðist að manni sá grunur að tilgangurinn hafi var sá einn að gleðja þá stjórnmálamenn og álitsgjafa sem gengið hafa lengst í að tortryggja söluna. Sá grunur styrktist eftir að Bankasýslan birti viðamiklar athugasemdir sínar um skýrsludrögin.

Í því samhengi má nefna að Ríkisendurskoðun gagnrýnir þekkingarleysi á útboðum innan Bankasýslunnar og að hún hafi reitt sig um of á ráðgjöf fjármálafyrirtækja. Þessi gagnrýni er algjörlega hrakin í athugasemdum Bankasýslunnar og vekur það athygli að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra að fullu í lokaútgáfu skýrslunnar. Óðinn, hinn alvitri mannauðsleiðtogi Ásgarðs, gerir þetta að umtalsefni í síðasta pistli sínum. Hann spyr: „Er ríkisendurskoðandi, sem hefur m.a. það hlutverk að ríkið fari vel með annarra manna peninga – fjármuni skattgreiðenda – virkilega að leggja til að það hafi verið sérfræðingur í sölu á hlutabréfum með tilboðsfyrirkomulagi í starfi hjá Bankasýslunni síðustu ár. Frekar en að leita utanaðkomandi ráðgjafar, líkt og gert var. Líklega eru slíkir menn teljandi á einum fingri í landinu. Er þetta eitthvað grín hjá ríkisendurskoðanda?“

Þá er gert tortryggilegt í skýrslunni að lítil velta hafi verið með bréf í Íslandsbanka í aðdraganda útboðsins. Algjörlega er litið fram hjá þeirri staðreynd að fjármálaráðuneytið hafði dagana áður samþykkt tillögur Bankasýslunnar um söluna og umsvifamiklir aðilar á markaði gátu ekki átt í viðskiptum með bréfin vegna innherjaupplýsinga sem þeir höfðu vegna þreifinga við Bankasýsluna.

Umfjöllun Ríkisendurskoðunar um gallað Excel-skjal í tengslum við útboðið vekur einnig furðu. Fram kom í fréttum eftir að skýrslunni var lekið að úthlutun í útboðinu hafi byggt á Excel-skjali sem var með villum. Þetta er ekki rétt og má rekja til mistaka þegar kom að gagnaöflun hjá Bankasýslunnar við gerð skýrslunnar. Verður að teljast undarlegt að Ríkisendurskoðun geri þetta að umfjöllunarskýrslunni.

Þá er einnig athyglisvert að skýrsludrögum Ríkisendurskoðunar hafi verið lekið til fjölmiðla þar sem einungis umsagnaraðilar og þeir sem rituðu skýrsluna áttu að vera með drögin undir höndum. Sér í lagi í ljósi þess að greinargerð Sigurður Þórðarsonar um Lindarhvol sem lokið var við árið 2018 hefur enn ekki komið fyrir augu almennings en Sigurður var settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols.

Sigurður taldi sjálfur árið 2018 að greinargerðin kæmi fljótlega fyrir augu almennings en hann var mun gagnrýnni á störf Lindarhvols en endanleg skýrsla Ríkisendurskoðunar. Forsætisnefnd Alþingis hugðist einmitt afhenda Viðskiptablaðinu greinargerð Sigurðar í apríl síðastliðnum eftir að hafa aflað lögfræðiálits sem studdi afhendingu greinargerðarinnar. Þeirri afhendingu var hins vegar frestað og hefur forsætisnefnd undir forystu Birgis Ármannssonar þingforseta enn ekki tekið ákvörðun um afhendingu greinargerðarinnar, sjö mánuðum síðar.

Þetta og fleiri atriði styrkja þann grun að fleira hafi ráðið för við gerð úttektarinnar en leitin að hinu sanna og rétta á málinu. Týr þykir það afleitt.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.