Bjarkey Olsen þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar hefur verið áberandi í fréttum síðustu daga. Hún vill til dæmis skoða sérstakan skatt á banka sem að hennar sögn eru að skila „myljandi“ hagnaði eða eins og hún sagði:
Ég vil alla vega skoða það að bankarnir komi hérna til og hjálpi okkur öllum í því að laga ástandið og verðbólguna og reyna að ná tökum á því að við erum að fást við.
Já. Laga ástandið. Ástand sem er einmitt að verulegu leyti á ábyrgð Bjarkeyjar sjálfrar og nefndarinnar sem hún stýrir og annarra alþingismanna og auðvitað ráðherra. Í meðförum fjárlaganefndar voru prentaðir tugir milljarðar króna með hækkun ríkisútgjalda sem verður að taka að láni – því þeir eru ekki til. Þessir milljarðatugir munu valda verðbólgu á kostnað alþýðunnar.
En. Batnandi mönnum er best að lifa.
***
Fjárlaganefnd fór til Parísar á dögunum í svokallaða fræðsluferð eftir að nefndinni var ljóst að hún vissi ef til vill ekki nóg um fjárlagagerð. Svipaðar ferðir hafa verið farnar af öðrum nefndum Alþingi síðasta árið en Týr hefur fundið upplýsingar um þrjár slíkar ferðir.
Þessar ferðir eru bæði skemmtileg og mikilvæg framfaraskref í starfi Alþingis í átt að fjölskylduvænni vinnustað þar sem haldið er þétt utan um þingmenn. Fyrirmyndin af fræðsluferðunum er fengin úr skólum og leikskólum, sem til dæmis fara í slíkar ferðir niður í fjöru. Eru ferðir skólanna þó eitthvað ódýrari.
Mikilvægt er þó fyrir fjárlaganefndina að hafa dregið réttan lærdóm af ferðinni. Í Frakklandi er hægt að læra hvernig ekki eigi að stýra ríkisfjármálum. Ef nefndarmennirnir 10, og þeir 2 starfsmenn þingsins, sem fóru í ferðina misskildu það eitthvað þá hafa líkurnar á því að ríkissjóður fari á hausinn aukist mikið.
***
Á heimasíðu Vinstri grænna segir:
Vinstrihreyfingin – grænt framboð er róttækur vinstriflokkur sem leggur höfuðáherslu á jöfnuð og sjálfbærni.
Týr veltir fyrir sér hvað fór í gegnum huga Bjarkeyjar þegar hún flaug heim eftir mikilvægu fræðsluferðina í París. Var hún að hugsa um höfuðáherslur Vinstri grænna.
Var hún að hugsa um hvernig hægt væri að spara í ríkisrekstrinum þannig að ekki þyrfti að taka peninga að láni svo að verðbólgan myndi hjaðna og gera ríkissjóð sjálfbæran – fyrir alþýðuna?
Var hún að hugsa um hvernig hægt væri að jafna kjörin í landinu. Þannig að allir sætu við sama borð, gætu leyft sér það sama og notið sömu lystisemda lífsins?
Nei. Bjarkey Olsen var upptekin við annað og mikilvægara.
Hún sat á Saga Class fyrir alþýðuna, sötraði smá hvítt og horfði á bíómynd. Á meðan sátu aðrir fjárlaganefndarmenn á Monkey class, eins og flugfreyjurnar kalla síðra farrýmið sín á milli.
Það sannast hið fornkveðna. Sumir er aðeins jafnari en aðrir.
Týr er skoðanadálkur í Viðskiptablaðinu.