Það nýtur töluverðra vinsælda á samfélagsmiðlum um þessar mundir að hnýta í Morgunblaðið. Það virðist fara fyrir brjóstið á sumum að blaðið hefur flutt fréttir af styrkjum ríkissjóðs til Fólks flokksins, sem virðast hafa verið greiddir á fölskum forsendum með fullri vitund Ingu Sælands, formanns flokksins, og af mögulegu vanhæfi Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns flokksins, sem mun að öllu óbreyttu taka við formennsku atvinnuvegar Alþingis.
Það sem er ekki síst merkilegt við þetta er hversu virkan þátt stjórnarþingmenn taka þátt í þessari aðför að trúverðugleika blaðsins.
Það sem grefur undan fullyrðingum þeirra sem halda því fram að Morgunblaðinu gangi eitthvað annað til en að segja fréttir sem varða almenning er sú staðreynd að allir aðrir fjölmiðlar hafa tekið upp þennan fréttaflutning með einum eða öðrum hætti.
Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra rammar þetta ágætlega inn. Um helgina skrifaði hann á heimasíðu sína:
„Ekkert af því sem Morgunblaðið segir um Ingu Sæland er rangt. Hvergi er farið leynt með heimildir eða heimildarmenn. Raunar er hún sjálf, Inga Sæland, besta uppspretta fréttanna vegna viðbragðanna sem hún sýnir þegar fjölmiðlaljósið beinist að henni. Ár og dagur eru frá því að slík framganga stjórnmálamanns hefur birst hér, er það eitt fréttnæmt fyrir utan tilefni fréttanna hverju sinni hvort sem þær snúast um fjármál Flokks fólksins eða samskipti Ingu við skólameistarann í Borgarholtsskóla.“
Þegar Morgunblaðið hóf að segja fréttir af því að Flokkur fólksins væri ekki skráður sem stjórnmálaflokkur og hefði þar með ekki rétt til þess að fá styrkveitingu frá ríkisvaldinu brást Inga formaður ókvæða við. Hún skrifaði á samfélagsmiðla að fréttaflutningurinn væri runninn undan rifjum „falsfréttamiðla í eigu auðmanna og ákveðinna stjórnmálaafla“.
Hvað vill hún? Vandaða falsfréttamiðla?!
Það er ekki gæfulegt þegar ráðherrar í ríkisstjórn í lýðræðisríki tala af slíkri vanvirðingu til heiðarlegra blaðamanna sem eru að sinna starfi sínu. Hefðu stuðningsmenn Ingu og ríkisstjórnarinnar kannski kosið að fregnir af vafasömum styrkveitingum til Flokks fólksins hefðu ekki verið fluttar? Það er ekki síður ógæfulegt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar láti í ljós
sérstaka velþóknun sína á slíkum skrifum eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra gerðu.

Í því samhengi er sérlega athyglisvert hvað stjórnarliðunum hefur legið á að koma á framfæri þeirri smjörklípu að misbrestur í framkvæmd laganna sé allur af völdum fyrri fjármálaráðherra. En ætli það hefði ekki heyrst hljóð úr horni ef Bjarni Benediktsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir eða Sigurður Ingi Jóhannsson hefðu verið með bein afskipti af því?
Hitt blasir við að Flokkur fólksins hefði áfram fengið styrkinn í trássi við lög og það á ábyrgð Daða Más Kristóferssonar ef ekki væri fyrir fréttaflutning Morgunblaðsins. Af því að Morgunblaðið – öfugt við Daða Má, Snorra Olsen ríkisskattstjóra og Ingþór Karl Eiríksson fjársýslustjóra – sinnti eftirlitshlutverki sínu.
Blaðinu ber því þakkir frá ríkisstjórninni frekar en skammir og skæting.
Annað sambærilegt dæmi átti sér stað í síðustu viku. Þá bauð þingmaðurinn Sigurjón Þórðarson upp á þau nýmæli á samfélagsmiðlum að gefa út Höskuldarviðvörun á óbirt viðtal sem var þó ekki við hann sjálfan. Þar vísaði Sigurjón í viðtal Stefáns Einars Stefánssonar, blaðamanns Morgunblaðsins ,við Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra sem var flutt á vef Morgunblaðsins daginn eftir að þingmaðurinn skrifaði færsluna.
Sigurjóni líkaði illa við að Stefán spurði ráðherra hvort sú staðreynd að þingmaðurinn geri út smábát á strandveiðar kunni að hafa áhrif á hæfi hans til að gegna formennsku í atvinnuveganefnd þegar kemur að umfjöllun um fjölgun veiðidaga strandveiðaflotans. Hanna Katrín taldi svo vera og rétt er að halda því til haga að spurning Stefáns er fullkomlega réttmæt.

Það þótti Sigurjóni ekki. Hann líkti spurningunni við „fyrirsát“ við ráðherra og aðferð við að vekja upp „óvild og tortryggni“ sem væri beint „að afkomendum og öryggi Ingu Sæland“, hvað sem það síðastnefnda þýðir í huga þingmannsins.
Nokkrum dögum síðar fjallaði Morgunblaðið um þá staðreynd að Sigurjón hefði ekki getið smábátaútgerðar sinnar í hagsmunaskráningu þegar hann tók sæti sem varaþingmaður í fyrra. Enn og aftur stökk þingmaðurinn til þegar fréttin birtist og sagði hana vera tómt bull á samfélagsmiðli sínum. Hann hafi ekki farið á veiðar sumarið 2023 og þar af leiðandi ekki þurft að gefa upp þessi hagsmunatengsl. Þetta er eins og að segja að þingmenn eigi bara að gefa upp hlutabréfaeign sína í fyrirtækjum þegar þau greiða arð, annars ekki. Allir sjá að slík skráningarskylda væri marklaus með öllu.
Annars er rétt að halda til haga að hagsmunaskráningu Sigurjóns var síðast breytt 5. júní í fyrra. Þá hafði Sigurjón þegar hafið strandveiðar en hann fór í fyrsta róðurinn 7. maí það árið. Sigurjón landaði 17 tonnum síðasta sumar og má ætla að aflaverðmætið hafi numið um tíu milljónum króna.
Gloppóttar skýringar þingmannsins hindruðu þó ekki Guðmund Ara Sigurjónsson, þingflokksformann Samfylkingarinnar, í að lýsa yfir stuðningi við málflutning Sigurjóns og sagði í ummælum við færslu hans að þarna hefði Morgunblaðið aldeilis skotið sig í fótinn.
Ekki voru allir óánægðir með þessa umfjöllun Moggans. Ólafur Stephensen, fyrrum ritstjóri blaðsins og núverandi framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, lýsti yfir velþóknun sinni með hana á samfélagsmiðlum:
„Gott hjá Mogganum að vekja athygli á því að fjárhagslegir hagsmunir þingmanna geta haft áhrif á ákvarðanir þeirra í mikilvægum málum. Líka gott hjá atvinnuvegaráðherranum að taka af skarið og lýsa því yfir að þingmaður sem á hlut í strandveiðifélagi muni ekki verða framsögumaður máls sem varðar hagsmuni strandveiðimanna miklu. Þið hjálpið mér kannski að rifja upp hvort Mogginn og fyrrverandi matvælaráðherra stóðu sig svona vel þegar fyrrverandi formaður atvinnuveganefndar mælti fyrir tillögum um breytingar á búvörulögum, sem vörðuðu beint hagsmuni félags í hans eigu.“
Ólafur hefði þurft lítið annað að gera en að slá upp nafni Þórarins Inga Pétursson í leitarvél Morgunblaðsins til þess að sjá ítarlega umfjöllun blaðsins um þau mál öll. Nú eða fletta honum upp á vef Alþingis og sjá að hann dró ekkert undan í hagsmunaskrá um eignarhlut í Búsæld ehf., en þannig átti hann heilan 0,172% hlut í Kjarnafélagi Norðlenska.
Heimildin hefur að undanförnu fjallað um málefni Carbfix sem er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur. Sem kunnugt er hefur Carbfix stórfelld áform um niðurdælingu á koldíoxíði á Völlunum í Hafnarfirði með það að augnamiði að afstýra breytingum á Golfstraumnum svo vísað sé til greinarskrifa starfsmanna félagsins.
Heimildin sagði frá því eins og aðrir miðlar í síðustu viku að stjórn OR hefði hækkað lánalínu félagsins til Carbfix. Lánalínan stendur nú í tólf milljörðum króna. Fréttaflutningur Heimildarinnar varð til þess að Gylfi Magnússon, stjórnarformaður OR, taldi þörf á að leiðrétta misskilning blaðamanna.

Í stuttu máli fólst áréttingin í því að segja að lánalínan yrði nýtt til grunnreksturs Carbfix en ekki fjárfestinga. Gylfi sagði meðal annars:
„Orkuveitan vinnur að þeirri stefnu sem mótuð var og staðfest af eigendum að fá meðeigendur að verkefnum Carbfix. Ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar um að tryggja Carbfix rekstrarfé í formi láns þar til samningsgerð lýkur er mikilvægur þáttur í framfylgd samþykktar stjórnar og eigenda Orkuveitunnar.“
Við þetta er lítið að athuga en rétt er að benda á að fjölmiðlar hafa lítið fjallað um hversu illa gengur hjá Orkuveitunni að finna þessa meðeigendur sem er forsenda fyrir uppbyggingu félagsins. Fjárhagsspá OR gerir ráð fyrir sjötíu milljarða fjárfestingu vegna Carbfix fram til ársins 2028 og öllum má vera ljóst að OR hefur ekki bolmagn til slíkra útgjalda. Í ársskýrslu OR fyrir árið 2023 kemur eftirfarandi fram:
„Lokað útboðsferli er í gangi þar sem markmiðið er að tryggja langtímafjármögnun á Carbfix, þróun á Coda Terminal verkefninu ásamt því að halda áfram að koma Carbfix tækninni fram á heimsvísu. Gert er ráð fyrir að útboðsferlinu ljúki á árinu 2024.“
Nú er árið 2025 runnið upp og ekkert bólar á fjárfestum í Carbfix, Á sama tíma neyðist OR til að hækka lánalínur til að borga starfsmönnum laun og til að standa straum af öðrum rekstrarkostnaði. Í fljótu bragði virðist þetta ekki vera gæfuleg staða sem OR er búið að koma sér í.
Gylfi lét að sér kveða á fleiri vígstöðvum í vikunni sem leið. Hann brást við tillögum Samtaka atvinnulífsins til sparnaðar í ríkisrekstrinum. Gylfi er ósammála því að það hljótist sparnaður af því að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka og greiða niður skuldir og lýsti hann þeirri skoðun sinni á Facebook.
Rökin eru að sögn Gylfa að ríkið fái meiri arð fyrir hlut sinn í bankanum en sem nemur sparnaðinum af lægri vaxtagreiðslum. Með sömu rökum mætti auðvitað mæla með því að ríkið gerði skuldsett yfirtökutilboð í Arion banka og Kviku en það er önnur saga. Hvað sem því líður þá „lækaði“ landslið hagfræðinga við færsluna en í því eru meðal annarra Guðrún Johnsen, Ásgeir Brynjar Torfason, Stefán Ólafsson og Atli Þór Fanndal.
Eitt er að hafa skoðun á eignarhaldi fjármálafyrirtækja, sitt sýnist hverjum um það. Það er hinsvegar engin röksemd að bera saman óvissar arðgreiðslur við öruggar vaxtagreiðslur, áhætta skiptir að sjálfsögðu lykilmáli. Nema prófessor í fjármálum við ríkisháskólann hafi afsannað að verðleggja þurfi áhættu og sé þá á leiðinni til Stokkhólms í verðlaunaafhendingu.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 5. febrúar 2025.