Heill og sæll Birgir!

Ég vil í upphafi þessa bréfs óska þér til hamingju með kjörið sem forseti Alþingis íslendinga. Starf forseta Alþingis er eitt virðingarmesta, mikilvægasta og vandasamasta starf sem alþingismanni er falið. Það kemur í hlut forseta Alþingis að standa vörð um sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu sem seilist í sífellu til aukinna áhrifa með liðsinni sífellt fjölmennara embættismannakerfis sem situr án umboðs almennings. Þá er ekki síður mikilvægt viðfangsefni forseta Alþingis að tryggja eftirlitshlutverk þingsins og þingmanna sem er stjórnarskrárvarið. Forseti þingsins á hverjum tíma þarf að vera forseti þingsins alls og gæta að jafnræði kjörinna fulltrúa á þinginu.

Ég hef fylgst af athygli með störfum þínum Birgir á þessum fyrsta þingvetri þínum sem forseti. Ég bar þá von í brjósti að þú myndir taka öðruvísi á málum en fyrirrennari þinn sem tók ítrekað málstað framkvæmdavalds og embættismannakerfis fram yfir hagsmuni Alþingis og þingmanna. Eins og nú horfir eru ekki líkindi til þess að sú von mín rætist.

Eins og þér mun kunnugt sat ég sem alþingismaður tvö kjörtímabil í forsætisnefnd Alþingis og sem nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins eitt kjörtímabil. Meðal mikilvægustu mála sem komu ítrekað fyrir þessar nefndir báðar á þeim árum var greinargerð setts ríkisendurskoðanda ad hoc um starfsemi fyrirtækisins Lindarhvols frá árinu 2018 og skýrsla Ríkisendurskoðunar um sama efni frá árinu 2020.

Frá því að greinargerð setts ríkisendurskoðanda ad hoc var afhent forseta Alþingis fyrir fjórum árum hefur forsætisnefnd þingsins ekki sé sér fært að birta hana opinberlega þrátt fyrir að fyrir forsætisnefndina hafi verið lögð fram tvö lögfræðiálit þar sem fram kemur að upplýsingar sem fram koma í greinargerðinni eigi ekki að fara leynt. Ennfremur að ekkert sé því til fyrirstöðu að greinargerð setts ríkisendurskoðanda verði gerð opinber. Mikilvægum upplýsingum er haldið leyndum fyrir almenningi,sem á rétt á að kynna sér staðreyndir málsins.

Fyrrverandi þingforseti sló leyndarhjúp um Lindarhvolsmálið að áeggjan m.a. fyrrum ríkisendurskoðanda sem nú situr sem ráðuneytisstjóri í ráðuneyti menningar og viðskiptamála. Fyrrum ríkisendurskoðandi hafði bæði í skýrslu sinni og á opinberum vettvangi með öðrum hætti vísað til greinargerðar setts ríkisendurskoðanda ad hoc og taldi að í innhald hennar væru staðreyndavillur og missagnir sem gætu skaðað hagsmuni ríkisins. Fram hefur komið að settur ríkisendurskoðandi ad hoc telur að með þessu hafi fyrrum ríkisendurskoðandi vegið að starfsheiðri sínum.

Nú undanfarið hefur greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol enn einu sinni verið til umræðu í forsætisnefnd Alþingis með það að markmiði að því að sagt er að hún komi fyrir almenningssjónir. Mun niðurstaða þess efnis hafa verið nánast fengin þegar einhver skipti um skoðun fyrir nefndina. Hermt er að tveir aðilar hafi lagst gegn birtingunni þ.e. núverandi nýkjörinn ríkisendurskoðandi og starfsmaður fjármálaráðuneytis sem er jafnframt eini stjórnarmaður Lindarhvols. Hvorugan aðilanna má kalla ótengdan málefnum Lindarhvols og spurningar vakna um hæfi viðkomandi einstaklinga í þessu máli. Það er hins vegar ákveðið áhyggjuefni að starfsmaður Alþingis og starfsmaður stjórnarráðsins skuli hafa miklar skoðanir á framgöngu Alþingis í máli sem varðar almannahag og einnig stjórnarskrárvarinn rétt þingmanna til eftirlits með framkvæmdavaldinu. Engu er líkara en að hér sé rófan að dilla hundinum.

Ég hlýt að varpa þeirri spurningu til þín Birgir hvort forseti Alþingis og forsætisnefndin öll ætli sér að útvista ákvörðunum sínum í auknum mæli í framtíðinni til hinna og þessara í stjórnkerfinu. Og hvort forseti og forsætisnefnd öll hafi ekki þor til að taka af festu á málum sem undir þig og nefndina heyra. Sé það raunin að forseti og forsætisnefnd hafi snúið við þeirri ákvörðun að opinbera ekki greinargerð setts ríkisendurskoðanda hlýt ég að lýsa eindregnum vonbrigðum mínum með þau vinnubrögð.

En nú er það ekki einasta erindi þessara bréfaskrifa að lýsa vonbrigðum með vinnubrögð og afgreiðslu þína og forsætisnefndarinnar á málefnum Lindarhvols. Þetta bréf er einnig kröfubréf vegna þess að ég undirritaður Þorsteinn Sæmundsson kt. 141153-5609 til heimilis að Vesturströnd 4 á Seltjarnarnesi geri þá kröfu að mér verði afhent eintak af greinargerð setts ríkisendurskoðanda ad hoc Sigurðar Þórðarsonar um Lindarhvol sem afhent var forseta Alþingis árið 2018 nú þegar án skilyrða um trúnað. Þessi krafa er sett fram m.a. á grundvelli upplýsingalaga og með vísan til tveggja lögfræðiálita eftir Reimar Pétursson og Flóka Ásgeirsson. Farið er fram á að krafa mín verði móttekin af embætti þínu og mér verði send staðfesting á móttöku erindisins. Undirritaður fer fram á að erindi mitt um afhendingu greinargerð setts ríkisendurskoðanda frá árinu 2018 verði tekið fyrir á næsta fundi forsætisnefndar. Ef forseti telur einhver tormerki á að verða við þessari réttmætu kröfu er óskað eftir rökstuddu skjótu svari.

Vertu kært kvaddur.

Þorsteinn Sæmundsson.