Nýr samskiptastjóri hóf störf hjá Hafrannsóknastofnun á dögunum. Hans fyrsta verk var að vekja athygli fjölmiðla á því að starfsmaður stofnunarinnar hefði verið valinn til þess að taka þátt í alþjóðlegum degi kvenna í „marghliða samvinnu“ á vegum Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í París í mánuðinum.

Sjúkratryggingar auglýsa nú eftir samskiptastjóra. Meðal verkefna hans verður að skrifa fréttir og sinna samfélagsmiðlum. Margar athugasemdir hafa verið gerðar við störf Sjúkratrygginga gegnum tíðina. Mönnum rekur þó ekki minni til að almenningur hafi kvartað mikið yfir skorti á fréttum af stofnuninni og óskað eftir að fá meiri fyrirferð hennar á samfélagsmiðlum. Þá eru Sjúkratryggingar að auglýsa eftir skrifstofustjóra yfirstjórnar stofnunarinnar. Það hlýtur að vera göfugt starf.

Það er ágætt að halda þessu til haga í ljósi þeirra hagræðingaaðgerða sem Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, boðaði í ríkisrekstrinum þegar fjárlög þessa árs voru kynnt í haust.

Í fréttatilkynningu ráðuneytisins við það tilefni segir:

Gert er ráð fyrir 17 milljarða ráðstöfunum á næsta ári til að hægja á vexti útgjalda. Þar af er gert ráð fyrir að launakostnaður stofnana lækki um 5 milljarða króna. Mun því koma til nokkurrar fækkunar stöðugilda í stofnanakerfinu, bæði í gegnum starfsmannaveltu og uppsagnir, en vörður verður áfram staðinn um framlínustarfsemi, m.a. á sviði heilbrigðismála, löggæslu, dómstóla, menntamála o.fl.

Væntanlega hefur þarna gleymst að telja upp samskiptastjóra og skrifstofustjóra í upptalningunni um framlínustarfsemi sem staðið verður vörð um á hagræðingartímum.

En staðreynd málsins er eftir sem áður sú að ríkisreksturinn hefur bólgnað stjórnlaust út undanfarinn áratug. Birtingarform þess er meðal annars óþarft fitulag sem hefur myndast í rekstri fjölda stofnana. Fitulag sem stafar af
verkefnum sem eiga ekkert skylt við þau verkefni sem þeim er ætlað að sinna.

Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, skrifaði áhugaverða grein í Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Þar bendir hún meðal annars á að stjórnsýslan hafi stækkað um fimmtung síðasta áratug á meðan að landsmönnum fjölgaði um 17%. Hún bendir jafnframt á að ríki Evrópusambandsins verja að meðaltali 11% af landsframleiðslu sinni í laun opinberra starfsmanna. Hér á landi er hlutfallið 16% og það þrátt fyrir að Ísland sé herlaust land ólíkt því sem gengur og gerist á meginlandinu.

Þetta sýnir svo ekki sé um villst að bráðnauðsynlegt er að endurskoða ríkisreksturinn. Hér er ekki átt við það grundvallarhlutverk ríkisvaldsins sem breið pólitísk sátt ríkir um hér á landi. Nei, hér er verið að leggja til að hvert stöðugildi verði skoðað með þá spurningu að leiðarljósi hvort á því sé þörf og hvort það tengist verkefnum viðkomandi stofnana með beinum hætti.

Þetta væri ágæt byrjun á vegferð sem miðar að því að setja ríkisreksturinn í megrun eftir að hafa fengið að hlaupa í spik undanfarin tíu ár. Þessi vinna ætti svo að haldast í hendur við hagræðingaraðgerðir, sameiningu stofnana og endurskoðun á hvaða verkefnum ríkið eigi að sinna. Eins og Ásta bendir á í grein sinni hefur þessi mikla fjölgun ríkisstarfsmanna og útgjaldaaukningar vegna launa þeirra ekki leitt til aukinnar skilvirkni í störfum hins opinbera. Þvert á móti hefur skilvirkni hins opinbera ekki verið minni í átta ár samkvæmt úttekt IMD viðskiptaháskólans í Sviss sem birt var í sumar og er Ísland neðst Norðurlanda á þann mælikvarða.

Reykjaneseldar og skelfilegar afleiðingar þeirra munu kalla á mikla útgjaldaaukningu ríkissjóðs og sér ekki fyrir endann á þeirri atburðarás. Þetta kallar á að ráðamenn velti fyrir sér hverri krónu þegar kemur að ríkisútgjöldum og hafi kjark og þor til forgangsraða í þeim efnum.

Þessi leiðari birtist fyrst í blaðinu sem kom út 24. janúar 2024.