Upptakturinn að framboði Höllu Hrundar Logadóttir er ekki sérlega frumlegur en greinilega þaulskipulagður.

Upptakturinn að framboði Höllu Hrundar Logadóttir er ekki sérlega frumlegur en greinilega þaulskipulagður.

Fyrir helgi birtist útvarpsauglýsing fyrir hádegisfréttir á RÚV þar sem „gangnamenn á Austur-Síðu afrétti“ skoruðu á Höllu að bjóða sig fram til forseta. Væntanlega á þetta kallast á við þegar áhöfnin á togaranum Guðbjarti ÍS skoraði á Vigdísi Finnbogadóttir að bjóða sig fram.

Á laugardagskvöld var Halla svo komin í settið hjá Gísla Marteini og tók þar upp harmonikku. Minnti þetta mjög á þegar Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar gerði slíkt hið sama á kosningavöku Stöðvar 2 árið 2021.

Vonandi hafa aðrir frambjóðendur orð bandaríska tónlistarmannsins Tom Waits að leiðarljósi: Sannur herramaður er maður sem kann að leika á harmonikku en kýs að gera það ekki.

Þrátt fyrir þetta hefur Halla, sem ætlar að tilkynna um áform sín eftir páska, ekki fengið til sín sérstaklega marga stuðningsmenn við framboð á Facebook eða um 2000 manns, þar á meðal að líkindum gervalla harmonikkuunnendahreyfinguna. Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur hefur 20 þúsund fleiri en Halla í sambærilegum hóp sem er litlu færra en er í hópnum Tenerife tips.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 27. mars 2024.