Verðhækkanir á raforku hafa verið til umræðu að undanförnu. Hér eru hin döpru lögmál skortsins á ferðinni. Orkuöflun hér á landi hefur ekki haldist í hendur við fólksfjölgun og framrás efnahagslífsins. Verð hækkar ef vaxandi eftirspurn er ekki mætt með auknu framboði.

Aukin orkuframleiðsla er hin augljósa lausn á þessum vanda í landi þar sem gnótt er af grænni orku. Þrátt fyrir það berja margir hausnum við steininn og telja lausnina felast í að ríkið stýri hvaða verði heimili og lítil fyrirtæki megi kaupa raforkuna á. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hefur talað fyrir „arðsemiþaki“ á raforkusölu til heimila. Þessi afleita hugmynd endurómar víðar í samfélaginu. Hefur Halla Hrund Logadóttur, fyrrverandi orkumálastjóri og núverandi þingmaður Framsóknarflokksins, talað á þessa leið.

Ekkert breytir því lögmáli að rétt verð myndast á markaði. Þeir sem tala fyrir þessum hugmyndum eru í raun og veru að tala fyrir því að ríkið beitti sér
fyrir niðurgreiðslu á raforku. Verði tekin skref í þá átt verður erfitt að snúa við af þeirri braut. Það kennir saga fjölda ríkja okkur, ekki síst þau sem hafa
skipað sér í hóp þróunarríkja.

Það er umhugsunarvert að íslenskt samfélag sé í þeim sporum að það komi í hugum margra til álita að fara að niðurgreiða einn af grundvallarframleiðsluþáttum efnahagslífsins í stað þess að mæta hækkandi raforkuverði með aukinni framleiðslu. Sem fyrr segir kennir sagan okkur það að þó svo að slík niðurgreiðsla sé smá í sniðum til að byrja með vindur hún upp á sig þar til hún verður farin að skekkja allt hagkerfið og grafa undan lífskjörum almennings og verðmætasköpun.

Leitun er að ríki sem býr við jafn mikla gnótt af orku miðað við mannfjölda. Í því ljósi er það hreinlega rannsóknarefni að það sé rætt um það af fullri alvöru að ráðast í niðurgreiðslur á orkukostnaði. Það er mikil fylgni milli orkuöflunar og hagsældar og þeir sem tala fyrir kyrrstöðu í orkumálum eru beinlínis að tala fyrir að grafa undan lífskjörum þjóðarinnar.

Ákveðin öfl berjast gegn aukinni framleiðslu á grænni orku til að standa undir orkuskiptum. Það er lykilatriði að ná frekari velsæld hér á landi og að íslensk stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar í orkumálum. Samtök á borð við Landvernd, sem setja sig á móti þessu, eru í raun að berjast fyrir því að lífskjör Íslendinga færist fjölda áratuga aftur í tímann.

En sem betur fer er þetta jaðarsjónarmið sem þó fær furðu mikið pláss í umræðu um orkumál. Íslendingar gera sér fyllilega grein fyrir að lífskjör á Íslandi hvíla á nýtingu grænna virkjunarkosta, fallvatna og heita vatnsins. Könnun sem Gallup gerði í haust leiddi í ljós að 83% landsmanna styðja aukna orkunýtingu enda sé um græna orku að ræða.

Það er ekki hræðsluáróður að benda á hin augljósu tengsl sem eru á milli orkunýtingar og hagsældar eins og sumir sem taka þátt í þessari umræðu láta í veðri vaka. Þetta eru einföld sannindi sem ekki verður breytt.

Það er til marks um hversu umræðan er orðin þvæld að málsmetandi fólk er farið að tala fyrir að ríkið niðurgreiði orku til ákveðinna aðila. Að vísu er ekki talað um niðurgreiðslu í þessu samhengi en eigi að síður er það raunin þegar ríkið er farið að handvelja hver fái að kaupa orku, sem er af skornum skammti, og hverjir ekki. Lausnin á þeim orkuvanda sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir er einföld og innan seilingar: Aukin orkuvinnsla. Sú stöðnun sem hefur orðið í orkuöflun er nú þegar farin að grafa undan lífskjörum hér á landi og því ríður á að rjúfa kyrrstöðuna.

Þessi leiðari birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 18. desember 2024.