Hrafnarnir furða sig á spá Orkustofnunar um framtíðarorkuþörf Íslendinga sem kynnt var í vikunni. Spáin er aðgengileg á vefsíðunni orkuskiptaspa.is.

Samkvæmt grunnspá þá verða lítil sem engin orkuskipti til ársins 2040, þvert á markmið ríkisstjórnarinnar, og þar af leiðandi þarf ekki að auka raforkuframleiðslu nema um ríflega 5% á ári.

Það er mun minna en útreikningar sérfræðinga Eflu, Samorku, RARIK, Landsneti, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun sem sýndi að auka þyrfti raforkuframleiðslu um 80% til að ná markmiðum stjórnvalda um full orkuskipti.

Af þessu er ljóst að Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri og hennar fólk ganga út frá því sem vísu að stjórnvöld verði langt frá því að ná markmiðum sínum í orkumálum og að ekki sé minnst á Parísarsáttmálann.

Hrafnarnir tóku reyndar eftir að þegar rýnt er í gögnin á síðunni og þau afkóðuð með aðstoð Rósettusteins má sjá að stofnunin telji að tvöfalda þurfi raforkuframleiðsluna sem er meira en aðrir hafa reiknað með.

Það vekur eigi að síður upp áleitnar spurningar hvers vegna stofnunin setur fram spánna með jafn óljósum hætti og er það vart til annars en að auka upplýsingaóreiðu um þennan mikilvæga málaflokk.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 1. desember 2022.