Meirihluti borgarráðs Reykjavíkur samþykkti á dögunum að krefjast þess að Orkuveitan greiði sex milljarða í arð í stað þess að peningunum yrði eytt í að fjárfesta í orkuöflun og að ekki sé minnst á að standa straum af skuldbindingum sínum vegna kaupa Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar.
Hildur Björnsdóttir og aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mæltu gegn þessu og var haft eftir henni að arðgreiðslan væri til marks um að meirihlutinn væri að „blóðmjólka Orkuveituna til að stoppa í götin í eigin rekstri“.
Það vakti athygli hrafnanna að allir þeir stjórnmálamenn sem lýstu yfir áhyggjum að eigendur HS Orku, íslenskir lífeyrissjóðir og erlendur stofnanafjárfestir, væru að rýja félagið að skinni fyrir nokkru tóku ekki undir áhyggjur Hildar. Talandi um HS Orku: Fréttir bárust af því að Tómas Már Sigurðsson og hans fólk væru búin að endurfjármagna félagið og munu fjörutíu milljarðar króna meðal annars vera nýttir til fjárfestinga til uppbyggingar á orkuframleiðslu félagsins. Hrafnarnir telja augljóst að ólíkar áherslur orkufyrirtækjanna í rekstri ráðist af því hvort þau eru í opinberri eigu eða einkaeigu.
Huginn og Muninn er einn af ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom 17. júlí 2024.