Það kom svo sem ekki mörgum á óvart að Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, var ráðinn forstjóri Skipta.
Ýmislegt benti til þess að svo færi. Í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins, sem send var fjölmiðlum, sagði að Orri „hefur ráðið sig sem forstjóra fjarskiptafélagsins Skipta“. Allir vissu um sterka stöðu Orra í umsóknarferlinu en fáum datt í hug að hann gæti ráðið sjálfan sig. Þremur mínútum síðar kom svo tilkynning frá Skiptum: „Stjórn Skipta hf. hefur ráðið Orra Hauksson forstjóra fyrirtækisins.“