Í apríl síðastliðnum tók Farice, sem tengir Ísland við umheiminn með fjarskiptasæstrengjunum, í notkun nýja fjarskiptaþjónustu um gervihnetti – svokallaða Varaleið. Með því var stigið stórt skref í átt að auknu öryggi samfélagslegra innviða á Íslandi, þar sem þjónustan tryggir notendum þjónustunnar lágmarksnetsamband við útlönd ef öll sæstrengjatenging við landið rofnar.

Lærdómur úr „Ísland ótengt“

Í netöryggisæfingunni „Ísland ótengt“ fyrr á þessu ári kom skýrt fram að uppsettar varaleiðir með gervihnattatengingum eru nauðsynlegar ef á reynir. Með Varaleið Farice hefur nú skapast raunhæfur grundvöllur fyrir slíka viðbúnaðartengingu en gera þarf ráðstafanir til að tengjast varaleiðinni. Fyrirtæki og stofnanir sem sinna mikilvægu hlutverki í innviðum samfélagsins ættu að líta á þetta sem ábyrgan hluta af viðbúnaðaráætlunum sínum um fjarskiptaöryggi.

Varaleiðin er í virkri notkun – en það þarf að tengjast

Varaleiðin er nú komin í rekstur og virkar eins og ætlað var. Kerfið mun byggjast upp í ákveðnum áföngum, verða öflugra samhliða fleiri þjónustupöntunum og styrkjast enn frekar eftir því sem tíminn líður. Gervihnattaþjónustur eru að þróast hratt í heiminum og því mikilvægt fyrir Ísland að byggja upp öflugan tengigrunn sem gerir okkur kleift að nýta mismunandi gervihnattaleiðir.  Varaleiðin er einmitt hönnuð með þennan skalanleika í huga og til að geta styrkts eftir því sem gervihnattaleiðum yfir Íslandi fjölgar.

En tenging við Varaleiðina við fjarskiptarof gerist ekki sjálfkrafa fyrir hvern og einn. Þjónustan mun aðeins verða gagnleg þeim sem hafa þegar skráð sig og klárað uppsetningu.

Núna er rétti tíminn

Farice býður þjónustuna í heildsölu og pantanir fara fram í gegnum fjarskiptafyrirtækin og internetþjónustuaðila sem þjónusta fyrirtæki og stofnanir. Við hvetjum kerfislega mikilvæg fyrirtæki og stofnanir til að bregðast við sem fyrst og panta tengingu við Varaleiðina hjá sínum þjónustuaðila. Verði fjarskiptarof um sæstrengina við Ísland munu þau ella verða sambandslaus við umheiminn.

Hefja þarf undirbúning í tíma, tryggja næg aðföng, setja upp lausnina og prófa virkni. Þetta er ekki flókið ferli. Rétti tíminn til að taka skrefið er núna og tryggja aukið fjarskiptaöryggi og viðbúnað áður en á reynir.

Höfundur er framkvæmdastjóri Farice.