Það vakti töluverða athygli á dögunum að íslenska ríkið gaf út svokallað kynjað skuldabréf fyrir 7,5 milljarða króna. Samkvæmt tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu er bréfið gefið út til þess að „tryggja konum og kvárum í viðkvæmri stöðu félagslega þjónustu.“

Það vakti töluverða athygli á dögunum að íslenska ríkið gaf út svokallað kynjað skuldabréf fyrir 7,5 milljarða króna. Samkvæmt tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu er bréfið gefið út til þess að „tryggja konum og kvárum í viðkvæmri stöðu félagslega þjónustu.“

Íslenska ríkið hefur verið að brjóta ný lönd í skuldabréfaútgáfu erlendis. Þannig gaf ríkissjóður út grænt skuldabréf í evrum fyrir um 111 milljarða króna í mars.

Það er í sjálfu sér jákvætt að íslenska ríkið geti sótt fjármagn á erlenda skuldabréfamarkaði á viðunandi kjörum en fleira hangir á spýtunni. Ríkissjóður er að ráðast í þessi útboð sökum þess að hann er fjárþurfi. Það er afleiðing þeirrar stefnu sem rekin hefur verið í ríkisfjármálum undanfarin ár – stefnu sem markast af sífelldri aukningu ríkisútgjalda.

Ríkissjóður hefur verið rekinn með viðvarandi halla allar götur frá árinu 2019. Ríkisútgjöld hafa aukist um hátt í fimm hundruð milljarða frá því að Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn tóku við völdum veturinn 2017. Engin raunveruleg áform um aðhald er að finna í ríkisfjármálaáætlun – þar er einungis að finna markmið um að auka útgjöldin ekki jafn hratt og undanfarin ár. Það á svo eftir að koma í ljós hvort þau markmið náist yfirhöfuð.

Í stað þess að reka ríkissjóð með afgangi á þessum uppgangstíma og grynnka á skuldum var alltaf stigið fastar á bensíngjöfina og ríkisfjármálin notuð til að ýta undir enn frekari þenslu og grafa undan viðskiptajöfnuði.

Íslenska ríkið hefur notið góðs af þeim mikla krafti sem hefur verið í efnahagslífinu á undanförnum árum. Það hefur skilað sér í hærri skatttekjum. Nú er hins vegar útlit fyrir að verulega sé tekið að hægja á í efnahagskerfinu og það gerir vanda ríkissjóðs erfiðari og fjárþörfina enn meiri.

Sést þetta meðal annars á þeirri staðreynd að Lánamál ríkisins tilkynntu í vikunni að ríkið myndi þurfa að auka skuldabréfaútgáfu sína um 30 milljarða á árinu til viðbótar við þá 120 milljarða útgáfu sem boðuð var í ársbyrjun. Til viðbótar þarf ríkissjóður væntanlega að endurfjármagna verulega miklar skuldir á næstu tveimur árum. Allt bendir því til þess að vaxtakostnaður ríkissjóðs muni hækka verulega á næstu árum.

Það er fyrirsjáanlegt að það muni þrengja að ríkisrekstrinum á næstu árum. Vandamálin sem af því hljótast verða ekki leyst með skattahækkunum heldur með aðhaldi og niðurskurði á ríkisútgjöldum. Því miður bendir fátt til þess að skilningur sé mikill meðal stjórnmálamanna á þessari grundvallarstaðreynd málsins. Það er ískyggilegt,  ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að gengið verður til alþingiskosninga á næsta ári að öllu öðru óbreyttu.

Á móti kemur hins vegar að óábyrg stefna í ríkisfjármálum undanfarin ár gerir það að verkum að af nægu er að taka þegar kemur að aðhaldsaðgerðum í rekstri ríkisins. Í umsögn fjármálaráðs um nýjustu fjármálaáætlun
ríkisstjórnarinnar er bent á þá merkilegu staðreynd að ríkisútgjöld í nágrannaríkjum Íslands séu nú hlutfallslega sambærileg við það sem þau voru áður en heimsfaraldurinn skall á. Íslensk stjórnvöld drógu hins vegar aldrei saman seglin eftir að plágan gekk yfir. Í umsögninni segir:

„Svigrúmið sem myndaðist þegar dró úr kostnaði við aðgerðir tengdar Covid-19 var að hluta eytt í ný útgjöld. Af þeim sökum eru útgjöld hins opinbera í framlagðri fjármálaáætlun hærri en þau voru fyrir heimsfaraldurinn.“

Það er ákaflega mikilvægt að ábyrgir stjórnmálamenn geri sér grein fyrir þessu og snúi hið fyrsta af braut óábyrgrar stjórnar efnahagsmála.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 3. júlí 2024.