Enn og aftur furðar Týr sig á framúrstefnulegri stjórnsýslu Svandísar Svavarsdóttir matvælaráðherra. En hann er hins vegar ekkert hissa á framgöngu majónesáhugafólksins í Samkeppniseftirlitinu.

Í gær birtist tilkynning frá Samkeppniseftirlitinu um að það hafi ákveðið að leggja á dagsektir á útgerðarfélagið Brim. Þetta kom fram í langri tilkynningu sem er svo tyrfinn að Týr ráðleggur ekki nokkrum manni að lesa hana nema með hafa Eirík Rögnvaldsson professor emeritus í íslenskri málfræði sér við hlið.

Ástæðan fyrir dagsektunum er að stjórnendur Brims neita að skila inn gögnum vegna athugunar Samkeppniseftirlitsins á stjórnunar- og eignartengslum sjávarútvegsfyrirtækja. Athugunin er gerð í verktöku fyrir Svandísi Svavarsdóttir. Með ákvörðuninni um dagsektina birti Samkeppniseftirlitið samninginn sem gerður var við ráðuneytið.

Tý þykir samnngurinn stórundarlegur svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þar kemur meðal annars fram að matvælaráðuneytið geti haldið aftur greiðslum til Samkeppniseftirlitsins vegna vinnunnar séu niðurstöðurnar ekki að skapi ráðherra. Með öðrum orðum getur ráðuneytið beitt stjórnvald sem hefur víðtækar rannsóknarheimildir þvingunum eftir geðþótta.

Óskað eftir gögnum sem eru meira og minna öllum aðgengileg

En hvaða gögn eru þetta sem Brim neitar að afhenda Samkeppniseftirlitinu. Týr hefur lesið gagnabeiðnina og hún snýr meira og minna að gögnum sem eru öllum opinber að fundargerðum undanskildum. Þarna er verið að biðja um hluthafalista og yfirlit yfir stjórnarmenn og yfir viðskipti með aflaheimildir sem undirstofnun matvælaráðuneytisins – Fiskistofa – heldur greinargott bókhald yfir.

Með öðrum orðum er þetta verkefni sem nokkrir sprækir annars árs hagfræðinemar hefðu getað innt af hendi fyrir lítinn pening í sumarvinnu. Það væri mun ódýrara en að borga hálaunamajónessérfræðingum í Samkeppniseftirlitinu 40 milljónir eins og matvælaráðuneytið gerir í þessu tilfelli. Það á auðvitað hver maður að sjá að þessar upplýsingar um félag sem er skráð á hlutabréfamarkað eru að mestu aðgengilegar.

Fram kemur í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins að öll önnur sjávarútvegsfyrirtæki hafi skilað inn upplýsingunum sem eftirlitið hefði einfaldlega getað kallað eftir hjá öðrum ríkisstofnunum. Stjórnendur Brims eru heldur ekki í neinum feluleik. Þeir neita að afhenda gögnin til að mótmæla þessari undarlegu vegferð matvælaráðherra og hvernig er staðið að þessu máli öllu saman. Týr tekur hjálminn ofan fyrir þeim. Það ættu fleiri að gera.

Týr er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.