Hrafnarnir voru á lágflugi yfir miðbæinn rétt fyrir hádegið og krossbrá. Tók Samfylkingin við stjórninni á landinu í nótt - var fyrsta hugsunin sem flaug í gegnum huga hrafnanna.

Bíl Össurar Skarphéðinssonar var nefnilega parkerað fyrir í bílastæðinu fyrir framan Stjórnarráðið, byggingu forsætisráðuneytisins, klukkan 10.54 á þessum fallega laugardagsmorgni.

Fyrsta skýringin sem hröfnunum datt í hug var að þarna hafi Össur mætt með Kristrúnu á fund með Bjarna Benediktssyni. Fundarefnið gæti til dæmis verið hugsanlegt samstarf að loknum næstu kosningum.

Það er ósennilegt og mun líklegra að fundurinn snerist um að einfalda stjórnarskiptin á næsta ári. Samfylkingin mælist nefnilega með 30,9% en Sjálfstæðisflokkurinn 18,2%.

En þá mundu hrafnarnir að akkúrat í þennan mund væri að hefjast enn einn klappfundurinn hjá Sjálfstæðisflokknum.

Ráðherrarnir ætluðu að útskýra fyrir Sjálfstæðismönnunum að nú myndi loks allt breytast í stjórnarsamstarfinu þótt mesta lagi rúmt ár væri eftir af því en tæp sjö liðin - og næstum allt í steik. Össur gæti því ekki verið að hitta Bjarna.

Önnur skýringin kom upp í hugann. Að Össur héldi að Bjarni væri ekki á kontornum - væri líklegast í golfi í góða veðrinu.

Össur, sem þekkir auðvitað alla dyraverði stjórnarráðsins, hafi ætlað ásamt Páli Gunnlaugssyni, gömlum og gegnum komma, arkitekt á ASK og föður Óttars á Logos, að skoða hvernig hægt væri að endurhanna stjórnarráðið að þannig að nægt pláss væri fyrir Ólaf Ragnar, og auðvitað Össur, þegar Kristrún tæki við.

Jafnvel líka Dag B. Eggertsson, sem hafi bent Össur á Pál vegna góðra starfa hans að tefja skipulag Reykjavíkurborgar, valda þar með þenslu á húsnæðismarkaði og gera Degi mögulegt að uppfæra virði Félagsbústaða og fegra um leið ársreikning borgarinnar.

Hrafnarnir viðurkenna að þeim fannst vera einkennilegt bragð af vatninu í morgunsárið, í nágrenni Kaffibarsins. Það hefur líklega verið vodkablandað sem útskýrir hugmyndaflugið hér að framan.

Þriðja skýringin er nefnilega líklegust. Að Össur hafi verið á ferð í Lækjargötunni og hinn aldni ráðherrabíll hans hafi bilað og okkar gamli alþýðuforingi lagt þarna meðan beðið væri eftir dráttarbíl.

Og hafi kannski fengið sér eina pullu á Bæjarins besti til að stytta biðina og því hvergi sjáanlegur þegar hrafnanna bar að garði.

Hrafnarnir munu að sjálfsögðu upplýsa lesendur Viðskiptablaðsins ef nýjar upplýsingar berast um þetta undarlega mál.

Huginn&Muninn er fastur dálkur í Viðskiptablaðinu.