Eyrún Magnúsdóttir, fjölmiðlakona og íbúi í Bústaðarhverfinu, hefur þungar áhyggjur af stöðu mála í heimahverfi sínu.

Eyrún Magnúsdóttir, fjölmiðlakona og íbúi í Bústaðarhverfinu, hefur þungar áhyggjur af stöðu mála í heimahverfi sínu.

Nikótínpúðasalinn, Sven, mun brátt opna verslun í Grímsbæ og við það breytist Bústaðavegur að sögn hennar í Nikótínstræti, en rafrettuverslunin Póló er steinsnar frá Grímsbæ. Í grein á Vísi kallar hún eftir því að Reitir og lífeyrissjóðir sýni samfélagslega ábyrgð með því að koma í veg fyrir að nikótínpúðaverslun opni á svæði þar sem stutt er í skóla og íþróttasvæði. Þá sakar hún Svens um að markmið þessa sé að „hasla sér völl meðal grunnskólanema“.

Þó kemur skýrt fram í skilmálum Svens að 18 ára aldurstakmark sé í öllum verslunum. Auk þess er þegar til húsa í Grímsbæ verslun sem selur nikótínpúða, Krambúðin.

Hrafnarnir vænta þess nú að Eyrún beini næst spjótum sínum að ÁTVR, sem rekur áfengisverslanir í flestum verslunarkjörnum landsins, og saki ríkisfyrirtækið um að hasla sér völl meðal grunnskólanema á nærliggjandi svæðum. Eða er ríkisstarfsmönnum kannski einum treystandi fyrir að gæta þess að aldurstakmörk séu virt?

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.