Samkvæmt mælingum Hagstofunnar dróst hagkerfið saman á síðasta ársfjórðungi og hefur sá samdráttur mælst tvo ársfjórðunga í röð.

Við þetta tilefni skrifaði Dagur B. Eggertsson orlofsfrömuður og forseti borgarráðs sigri hrósandi á samfélagsmiðla: „Hagstofan birti fyrr í dag upplýsingar um samdrátt íslenska hagkerfisins annan ársfjórðunginn í röð. Eitthvað virðast fyrirsagnir fréttamiðla láta á sér standa en í hagfræði er til skýrt heiti á þessu fyrirbæri. Samdráttur í hagkerfi tvo ársfjórðunga í röð heitir: Kreppa.“

Þetta er nú reyndar ekki alveg rétt hjá Degi þar sem hagfræðilega skilgreiningin á þessu fyrirbrigði er samdráttarskeið (e. recession) og svo er kreppa (e. depression) annað og stærra mál. Dagur tjáir sig sjaldan um efnahagsmál og eru kannski ágætis ástæður þar að baki. Hrafnarnir rifja upp í því samhengi þegar Bjarni Benediktsson þáverandi fjármálaráðherra neyddist til að svara Degi á samfélagsmiðlum eftir að sá síðarnefndi hélt því fram að ríkið hefði verið rekið með miklum halla árið 2019 þegar staðreynd málsins var sú að það var rekið með 42 milljarða króna afgangi.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 4. september 2024.