Óáþreifanleg réttindi geta verið með verðmætustu eignum fyrirtækja. Á meðal slíkra verðmæta geta verið auðkenni, enda viðskiptavild oftar en ekki tengd heiti fyrirtækis eða þeim vörumerkjum sem fyrirtæki notar fyrir vörur sínar eða þjónustu.
Auðkenni geta notið verndar að lögum, m.a. sem firmaheiti og vörumerki. Sá réttur sem felst í þessum auðkennum er ekki síst einkaréttur rétthafans til notkunar á auðkennunum. Rétthafinn getur þannig komið í veg fyrir notkun þriðja aðila á ruglingslega líkum auðkennum í atvinnustarfsemi. Vörumerki eru skráð til tíu ára í senn en engin takmörk eru á því hversu oft má endurnýja þá skráningu. Í vörumerkjalögunum er hins vegar að finna skilyrði um notkun. Hafi vörumerki ekki verið notað í fimm ár frá skráningu eða fimm ár samfleytt getur þriðji aðili óskað eftir því við Einkaleyfastofu eða dómstóla að skráningin verði felld úr gildi. Slík krafa skal ná fram að ganga nema rétthafi geti sýnt fram á notkun eða að gildar ástæður séu fyrir því að notkun á vörumerkinu hafi ekki átt sér stað. Skráning firmaheita er hins vegar ekki tímabundin. Þá er enga sambærilega kröfu um notkun að finna í lögum varðandi skráningu á firmaheitum.
Með skráningu á firmaheiti getur rétthafi slíkrar skráningar þannig komið í veg fyrir notkun þriðja aðila á ruglingslega líku auðkenni í sambærilegum rekstri, hvort sem auðkennið er notað sem firmaheiti eða vörumerki.
Engu máli skiptir þó fyrirtækið sem nýtur réttar yfir firmaheitinu hafi ekki verið í rekstri í mörg ár. Svo lengi sem félaginu hefur ekki verið formlega slitið og það afskráð er skráning í firmaskrá Ríkisskattstjóra fyrirstaða þess að aðrir geti notað lík heiti í starfsemi sinni. Einkaleyfastofa skráir þannig ekki vörumerki ef þau eru talin ruglingslega lík skráðu firmaheiti og þá neitar Ríkisskattstjóri jafnframt skráningu líkra firmaheita ef um sambærilegan atvinnurekstur er að ræða. Engin rök eru fyrir því að veita firmaheitum þessa víðtæku vernd.
Núgildandi lög um skráningu firmaheita eru frá árinu 1903. Mikið hefur breyst í íslensku atvinnulífi síðan þá og því full ástæða til að endurskoða umrædd lög og taka upp sambærilegar kröfur um notkun firmaheita og finna má í núgildandi vörumerkjalögum.
Höfundur er lögfræðingur og einn eigenda LOGOS.