Ný matvöruverslun mun brátt opna dyr sínar og hefur Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Heimkaupa, sem standa fyrir versluninni, lofað því að félagið muni leiða til verðlækkana.
Eins og margir muna stýrði Gréta Krónunni fyrir nokkrum árum síðan af myndarbrag og þekkir matvörumarkaðinn út og inn.
Það kom því hröfnunum á óvart að sjá hana fara með sömu gömlu tuggu í kvöldfréttum Stöðvar 2 og Auður Alfa Ólafsdóttir, hjá verðlagseftirliti ASÍ, um að fákeppni á matvörumarkaði sé helsta ástæða hás verðs. Þó hefur verið bent á að framlegð stærstu matvörukeðjanna er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Auk þess má ætla að verð væri enn hærra ef markaðurinn væri uppfullur af smáum verslunum sem ættu þ.a.l. erfitt með að ná fram stærðarhagkvæmni.
Að því sögðu fagna hrafnarnir innkomu Prís og vonast til að Gréta standi við stóru orðin.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.