Það hafði enginn flokkur það sérstaklega á stefnuskrá sinni að margfalda veiðigjöld með því að miða útreikning þeirra við norskt verð eða jafnvel röng verð, eins og gert er í veiðigjaldafrumvarpi Hönnu Katrínar Friðriksson, atvinnuvegaráðherra. Komið hefur fram að Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, hafi á fundum í tengslum við ferð sína um landið sagt að hækka þyrfti veiðigjaldið með fyrirsjáanlegum hætti og yfir langt tímabil.

Þótt vissulega hefðu menn átt von á einhverri hækkun veiðigjalda eftir að vinstriverkastjórn Kristrúnar tók við völdum, áttu fæstir von á því að þau yrðu margfölduð með þeim hætti að vafamál er hvort það borgi sig hreinlega að gera út á tegundir á borð við makríl og ufsa – svo einhver dæmi séu tekin – eftir að lögin taka gildi.

***

Týr hefur velt því fyrir sér hvar rót þessa glapræðis liggur. Það eina sem hann hefur fundið í þeirri leit eru skrif Þórðar Snæs Júlíussonar, framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar, frá október. Þar skrifar þessi helsti hugmyndafræðingur ríkisstjórnarinnar:

„Það mætti til að mynda koma strax á hærra veiðigjaldi með þrepaskiptingu til að hlífa smærri útgerðum, en ná stærri hluta af auðlindarentunni til þjóðarinnar.“

Allt frá því að frumvarpið var lagt fram hafa svo stjórnarliðar þulið frasa úr orðavaðli Þórðar um að þessi mikla hækkun veiðigjalda muni ekki hafa nein áhrif á fjárfestingar, samkeppnisfærni eða aðrar rekstrarákvarðanir í sjávarútvegi, þar sem skatturinn sé tekinn af „auðlindarentunni“. Á sama tíma hafa sjávarútvegsfyrirtæki fallið frá fjárfestingaáformum upp á tugi milljarða króna.

Það er ekkert sérstaklega gáfulegt að fela fólki sem hefur engan skilning á efnahagsmálum stefnumótun í slíkum málum.

***

Það veit Ragnar Árnason, prófessor emeritus í fiskihagfræði. Í viðtali við Morgunblaðið síðustu helgi bendir hann á að „auðlindarenta“ sé delluhugtak í hagfræðilegum skilningi, og að eðli málsins samkvæmt veikir öll skattlagning samkeppnisfærni fyrirtækja – hvort sem um sé að ræða hagræna rentu eða svokallaða auðlindarentu. Hann telur að Kristrún hafi verið „leidd í villigötur“ af óvönduðum ráðgjöfum. Týr tekur heilshugar undir það.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.Þessi pistill birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 2. júlí 2025.