Evrópumótið í knattspyrnu sem nú fer fram í Þýskalandi hefur verið hin besta skemmtun, þó svo að lærisveinar Gareth Southgate í Englandi hafi gert sitt besta til að draga úr skemmtanagildinu.
Eins og gengur og gerist hefur fjöldi áminninga í formi gulra spjalda farið á loft. Það allra óverðskuldaðasta verður að teljast gula spjaldið sem Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins, veitti sparkspekingnum Hjörvari Hafliðasyni fyrir meinta dulda auglýsingu í setti EM-stofunnar.
Í þættinum skartaði Hjörvar ofurkonujakka með einkennismerki Dr. Football hlaðvarpsins, sem hann á og rekur, á brjóstinu. Umræddur jakki er hvergi fáanlegur til sölu, auk þess sem hlaðvarpið er í anda fjölbreytileika- og inngildingarstefnu Dr. Football aðgengilegt endurgjaldslaust.
Það eina sem Hjörvar býður til sölu á vefsíðu sinni, eins og staðan er í dag, eru glæsilegir Dr. Football X Nocco inniskór í stærð 38. Að auki hafa allir knattspyrnuáhugamenn sem horfa á EM-stofuna sennilega áður heyrt minnst á hlaðvarpið.
Það er því vandséð hverja dagskrárstjórinn er að vernda með þessari áminningu sinni.
Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.