Geta heimila og fyrirtækja til að greiða fyrir vörur og þjónustu með öruggum hætti er mikilvægur þráður í þolgæðum samfélagsins andspænis vaxandi óvissu í alþjóðamálum og fjölþáttaógnum.
Hér á landi eru nær níu af hverjum tíu smásölugreiðslum framkvæmdar með greiðslukortum sem nýta erlenda innviði. Útbreidd notkun þeirra er til marks um skilvirkni þess kerfis. Einsleitni í greiðslumiðlun skapar þó áhættu fyrir samfélagið. Seðlabankinn hefur því um nokkurra ára skeið kallað eftir aukinni fjölbreytni greiðsluleiða sem ásamt auknu þanþoli innviðanna getur aukið öryggi og viðnámsþrótt í miðlun fjármagns. Því miður eru horfur í alþjóðamálum slíkar að óverjandi er með öllu að gera ekki einhverjar slíkar ráðstafanir.
Seðlabankinn skal stuðla að öruggri greiðslumiðlun
Seðlabankanum ber að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun. Árið 2024 var bankanum veitt heimild til að setja reglur til að auka viðnámsþrótt, öryggi og virkni í greiðslumiðlun.
Bankinn hefur unnið markvisst í þessum málum undanfarin misseri. Í nýlegri yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar undirstrikaði nefndin mikilvægi þess að komið verði á fót innlendri óháðri greiðslulausn og viðnámsþróttur efldur með fjölgun greiðsluleiða.
Greiðslur án nettengingar – öryggisventill í rafrænu umhverfi
Þegar greiðslukerfi treysta nánast alfarið á nettengingu getur rof í fjarskiptum haft alvarleg áhrif. Seðlabankinn hugar því að möguleikum þess að móta umgjörð til að tryggja að greiðslur með kortum geti farið fram án nettengingar.
Til þess að hægt sé að innleiða netlausar greiðslur hér á landi þarf aðkomu helstu hagsmunaaðila, þ.e. kortaútgefenda, færsluhirða og tækniþjónustuveitanda. Seðlabankinn er að hefja formlegt samtal við hagaðila, m.a. um tæknilega útfærslu, ábyrgð, umfang og kostnað. Stefnt er að því að lausn liggi fyrir innan árs.
Reiðufé mikilvægt þegar á reynir
Þótt tækni fleygi fram gegnir reiðufé áfram mikilvægu hlutverki ef rafræn greiðslumiðlun bregst. Seðlabankinn fylgist náið með tilmælum norrænna systurstofnana sinna um að almenningur skuli á hverjum tíma hafa í fórum sínum reiðufé sem dugi til þess að greiða fyrir nauðþurftir. Hversu há sú fjárhæð ætti að vera hér á landi myndi m.a. ráðast af öðrum ráðleggingum stjórnvalda.
Seðlabankinn hefur í þessu tilliti unnið að því að tryggja skilvirka dreifingu reiðufjár. Einnig verður litið til heimilda bankans til að setja reglur sem geta m.a. tekið til reiðufjár og mæla fyrir um nauðsynlegar ráðstafanir, m.a. varðandi skyldu ákveðinna söluaðila og þjónustuveitenda til þess að taka við reiðufé í þágu rekstraröryggis.
Innlend og óháð smágreiðslulausn mikilvægur þáttur aukinna þolgæða
Í desember sl. auglýsti Seðlabankinn eftir tillögum að miðlægum innvið fyrir greiðslubeiðnir sem væri óháður erlendum innviðum. Ljóst er af tillögum sem bárust að til staðar eru aðilar sem geta uppfyllt kröfur bankans um innvið sem hægt er að hýsa innanlands undir forræði bankans og þróa má og reka með hagkvæmum hætti.
Síðar í mánuðinum mun liggja fyrir skýrsla um tæknikröfur, skemareglur og framtíðarlausnir innviðarins sem leggja mun grunn að ákvörðun Seðlabankans um næstu skref. Vendingar í alþjóðamálum að undanförnu undirstrika brýna þörf fyrir slíkan innvið og að hann verði tekinn í notkun fyrr en seinna.
Miðlægi innviðurinn getur verið hornsteinn í innlendri fjármálainnviðauppbyggingu. Hann mun nýta núverandi innviði fyrir millifærslur og verður opinn öllum. Með innviðnum munu aukast möguleikar fyrir greiðslulausnir sem reiða sig á innlenda innviði með svokölluðum „reikning-í-reikning“ viðskiptum.
Fjármálastöðugleiki kallar á fjölbreyttar lausnir
Traust og örugg greiðslumiðlun er ein undirstaða virkni hagkerfisins, efnahagslegrar velsældar og fjármálastöðugleika. Til að viðhalda öryggi og virkni kerfanna þarf fjölbreyttar lausnir sem geta staðist truflanir.
Með því að efla netlausar greiðslur, tryggja aðgengi og móttöku reiðufjár og þróa innlenda greiðslulausn eykur Seðlabanki Íslands öryggi og viðnámsþrótt fjármálakerfisins. Þannig stuðlar bankinn að því að almenningur og fyrirtæki geti treyst á greiðslumiðlun, jafnvel þegar mest á reynir.
Höfundur er varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands.