Það er óhætt að segja að hugur þjóðarinnar sé hjá Grindvíkingum um þessar mundir. Þó enn sé beðið átekta er ljóst að margir hafa þegar orðið fyrir beinu og verulegu tjóni, hvort sem horft er til heimila eða atvinnustarfsemi. Annað tjón, en öllu óáþreifanlegra, er tjónið sem sjálf óvissan veldur og það er ómælt.

Það er óhætt að segja að hugur þjóðarinnar sé hjá Grindvíkingum um þessar mundir. Þó enn sé beðið átekta er ljóst að margir hafa þegar orðið fyrir beinu og verulegu tjóni, hvort sem horft er til heimila eða atvinnustarfsemi. Annað tjón, en öllu óáþreifanlegra, er tjónið sem sjálf óvissan veldur og það er ómælt.

Íbúar og atvinnurekendur Grindavíkur hafa flestir staðið í ströngu við að tryggja öryggi fólks og bjarga þeim verðmætum sem bjargað verður, skyldi allt fara á versta veg. Auk þess að reyna að tryggja sér og sínum viðverustað í þessu sannkallaða hamfaraástandi hafa fjárhagsáhyggjur bætt gráu ofan á svart.

Fyrirtæki í Grindavík, sem tilheyra fjölbreyttum atvinnugreinum, eru hvert á sinn hátt mikilvægur hlekkur í stórri keðju. Og þó hagkerfi Grindavíkur sé kannski ekki risastórt er fjöldi fólks á svæðinu, og víðar, sem á mikið undir tilvist og velgengni grindvískra fyrirtækja.

Við vitum sem er að vegurinn fram undan fyrir Grindvíkinga er langur og strangur og óvissu háður.

Rétt eins og íbúar Grindavíkur óttast um afkomu sína lifa atvinnurekendur nú í fullkominni óvissu um framhaldið. Margir hafa upplifað algjört tekjufall á meðan öðrum hefur tekist með herkjum að viðhalda einhverri starfsemi. Aðstöðumunurinn er mikill hvað það varðar. Frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra um stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavík er mikilvægt innlegg til þess að draga úr fjárhagsáhyggjum og jafna þennan aðstöðumun á meðan mesta óvissan varir.

Eftir stendur spurningin um framtíð bæjarfélagsins – hvort, hvernig og hverjir muni standa fyrir uppbyggingu á svæðinu að þessum atburði liðnum. Við vitum sem er að vegurinn fram undan fyrir Grindvíkinga er langur og strangur og óvissu háður. Varanlegri lausnir munu þurfa að koma til. Verkefnið nú er hins vegar að verja dýrmæta innviði og draga úr óvissunni – því hún er verst.