150. grein almennra hegningarlaga hljóðar svo: „Hver, sem falsar peninga í því skyni að koma þeim í umferð sem ósviknum gjaldeyri, svo og hver sá, sem í sama skyni aflar sér eða öðrum falsaðra peninga, skal sæta fangelsi allt að 12 árum.

Sé fölsun framkvæmd á þann hátt, að skert er efnisverð gjaldgengrar myntar, skal refsingin vera fangelsi allt að 4 árum.“

Tilgangur þessara refsiákvæða er að hegna fyrir þann þjófnað sem felst í því að búa til nýja peninga upp úr þurru, án þess að nokkur verðmæti búi þar að baki. Sá sem það iðkar gerist sekur um fölsunarbrot, því þeir peningar sem fyrir eru í umferð rýrna sem nemur verðgildi hinna fölsuðu peninga.

Starfsemi hins opinbera nær og fjær byggir að miklu leyti á slíkum stuldi, sem er refsiverður þegar almennir borgarar eiga í hlut. Seðlabankar arðræna almenning með því að skapa nýja peninga og færa þannig auð til þeirra sem fá hið nýja „fé“ áður en kaupmáttur peninga í umferð rýrist almennt vegna peningaprentunarinnar. Um er að ræða mestu eignatilfærslu mannkynssögunnar.

Peningaprentararnir horfa ekki í augun á betlaranum við Bónus.

Þessi einokun hins opinbera á peningafölsun er meðal annars notuð til þess að fjármagna ósjálfbæran opinberan rekstur með ósýnilegri skattlagningu á hinn almenna borgara. Fáir átta sig á þessum tilfærslum. Áhrifin eru dreifð og koma ekki strax fram.

En þótt ákvarðanir um eignatilfærslur af þessu tagi séu oftast teknar af góðum hug og í þeim yfirlýsta tilgangi að stuðla að jafnvægi í hagkerfinu eru afleiðingar þeirra áþreifanlegar fyrir það fólk sem síst skyldi. Þeir sem hafa minnst á milli handanna þurfa eðli málsins samkvæmt að nota hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum en aðrir til nauðþurfta á borð við mat og húsaskjól.

Peningaprentararnir horfa ekki í augun á betlaranum við Bónus, illa klæddum í fimm stiga frosti og nístandi næðingi. Out of sight, out of mind.