Árið sem er að líða er ár ríkisstarfsmannsins. Þetta var árið sem ríkisstarfsmenn fjölmenntu í forsetaframboð og fylltu flesta framboðslistana í alþingiskosningunum. Þetta var líka árið sem Samfylkingin uppgötvaði stóra planið  – að hækka skatta og auka ríkisútgjöld og driftið á Akureyri fékk loksins þann heiður sem það á skilið. Hrafnarnir gera þessu sem og öðru sem markvert var á árinu skil í áramótayfirferðinni.

Plan ársins

Kristrún Frostadóttir og félagar í Samfylkingunni minntu fólk í sífellu á að þau væru með plan. Hefur engum manni verið jafn tíðrætt um plön sín frá því að Baldrekur var og hét í sjónvarpsþáttunum um Edmund Blackadder. Svo mikið tönnlaðist Kristrún á að Samfylkingin væri með plan að Inga Sæland tók upp á því að kalla hana starfsmann á plani með öll sín plön. Þegar nánar var að gáð snerist planið um það sama og vanalega, hækkun skatta og aukin ríkisútgjöld.

Drift ársins

Frændurnir Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson kynntu á árinu nýtt frumkvöðlaog nýsköpunarfélag. Tilgangur félagsins er að veita frumkvöðlum fyrir norðan aðstöðu, faglega ráðgjöf og fjárstuðning og með þessu vilja frændurnir gefa aftur til samfélagsins og komandi kynslóða að eigin sögn. Hrafnarnir eru sérstaklega ánægðir með nafngiftina á félaginu en það fangar tvö af helstu einkennum Akureyrar – EA sem stendur fyrir heimahöfn þessa mikla útgerðarbæjar og svo driftið sem er hápunktur Bíladaga á Akureyri ár hvert.

Drift
Drift
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Myndbirtingar ársins

Samfylkingin sendi frá sér fjölda myndabæklinga á árinu sem innihélt myndir af Kristrúnu Frostadóttur. Í bæklingi um stefnu flokksins í orkumálum var að finna tuttugu og tvær myndir úr starfi flokksins. Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins, er á tuttugu þeirra.

Ekki nóg með það þá sendi flokkurinn frá sér mynd frá kynningu á orkustefnu flokksins. Auðvitað er myndin af Kristrúnu sem heldur á skýrslunni sem skreytt er með mynd af henni sjálfri á forsíðu. Þetta er töluverð bæting hjá Kristrúnu og aðdáendum hennar.

Þegar Kristrún steig fyrst allra Samfylkingarmanna inn í Mjóddina í fyrrahaust og kynnti stefnu flokksins í heilbrigðismálum voru aðeins fjórtán myndir af átján í bæklingnum af henni sjálfri.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.