Því er hvíslað að Tý að fátt geti komið í veg fyrir að Kristrúnu Frostadóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur takist ætlunarverk sitt að mynda stjórn með Flokki Ingu Sæland.
Enginn virðist vera spenntari fyrir samsteypustjórn Flokks Ingu Sæland, Samfylkingar og Viðreisnar en Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi. Hún skrifaði grein um helgina þar sem hún lýsir yfir velþóknun sinni á myndun slíkrar stjórnar. Vöktu skrifin mikla eftirtekt og fór að kvisast út að Halla Hrund hygðist svíkja lit og taka sæti í ríkisstjórninni fyrir hönd Flokks Ingu Sæland.
Yrði það einhver umdeildustu leikmannaskipti Íslandsögunnar frá því að Bjarni Guðjónsson fór í KR.
Þessar vangaveltur hvíla á þeirri hugsun að þingmenn flokksins séu ekkert sérlega áhugasamir um að taka sæti við ráðherraborðið. Ásthildur Lóa Þórsdóttir er óumdeilanlega einn af sigurvegurum kosninganna en hún er fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis.
Hún hefur sagt að hún geri ekki kröfu um ráðherrastól fari flokkurinn í ríkisstjórn þó með þeirri undantekningu að ef flokkn-um stend-ur til boða ráðuneyti sem hún tel-ur sig hæf-asta af þingmönnum flokksins til að sinna þá mun hún gera kröfu þess efn-is. Einhverjum gæti þótt við hæfi í þessu samhengi að rifja upp frásögnina úr Grettlu um Önund einfætta sem „hefir fræknastur verið og fimastur einfættur maður á Íslandi“.
Áhugavert verður að fylgjast með hversu fast Ragnar Þór Ingólfsson, Guðmundur Ingi Kristinsson og Sigurjón Þórðarson sækja að fá ráðherrastól.
Þingmenn Viðreisnar virðast vera spenntari fyrir að setjast í ráðherrastólana. En ráðherrakapall flokksins gæti orðið flókinn fái flokkurinn forsætisráðuneytið og tvo ráðherrastóla eins og sumir spekingar hafa leitt líkum að.
Þorgerður Katrín myndi að sjálfsögðu setjast í stól forsætisráðherra og ljóst er að Hanna Katrín Friðriksson og Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir gera kröfu um að fá ráðherraembætti.
Týr hefur hins vegar heyrt að búið sé að lofa Daða Má Kristóferssyni, varaformanni flokksins, ráðherrastól taki Viðreisn þátt í að mynda ríkisstjórn. Glöggir hafa einmitt séð Daða sækja stjórnarmyndunarviðræðurnar með Þorgerði undanfarið.
Samfylkingin er lengra komin eins og allir vita. Kristrún Frostadóttir skipaði Ölmu Möller heilbrigðisráðherra áður en að kosið var og gerði kjósendum ljóst að Dagur B. Eggertsson væri sérstakur stuðningsliði flokksins og því ekki ráðherraefni.
Týr er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 11. desember 2024.