Við hjá Landvernd fögnum því að spörfuglar Viðskiptablaðsins Huginn og Muninn hafa tekið sig til og leyst nokkur af verkefnum loftslagssmiðju Skóla á grænni grein, betur þekkt sem Grænfánaverkefnið. Það er jákvætt að öll sem vilja láta sig umhverfismál varða noti þá fjölbreyttu fræðslu sem starfsfólk Skóla á grænni grein hefur útbúið.
Markmið Grænfánaverkefnisins, sem er alþjóðlegt og hefur fengið viðurkenningu UNESCO sem besta innleiðingartæki sjálfbærnimenntunar, er að gera nemendum kleift að mynda sér eigin skoðanir á umhverfismálum og gera þau fær um að skoða umræðuna með gagnrýnum augum.
Hitt er verra að spörfuglarnir hafa misskilið verkefni loftslagssmiðjunnar og rugla saman annars vegar hvatningu til nemenda um að mynda sér eigin skoðun og spyrja gagnrýninna spurninga og hins vegar pólitískri innrætingu.
Efla gagnrýna hugsun
Þann hluta smiðjunnar sem um ræðir má finna hér. Þar eiga framhaldsskólanemendur meðal annars að mynda sér skoðun á því af hverju ákveðinn pistlahöfundur kemst að þeirri niðurstöðu meðal annars að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki staðið vel að umhverfismálum, sem er líklega það sem fer fyrir brjóst spörfuglanna. Nemendurnir eiga því að mynda sér sjálfstæða skoðun, en ekki lepja upp hrátt það sem pistlahöfundur segir.
Rétt er að benda á að í sömu loftslagssmiðjum er að finna verkefni þar sem framhaldsskólanemendurnir eiga að mynda sér skoðun á rökum þeirra sem afneita loftslagsbreytingum. Tilgangur þess er augljóslega ekki að fá nemendur til að lepja upp skoðanir afneitunarsinna heldur að nemendurnir kynni sér málflutninginn á gagnrýninn hátt og myndi sér síðan eigin skoðun.
Ísland notar kol á við Indland
Það er ánægjulegt að Viðskiptablaðið er byrjað að fjalla meira um loftslagsmál. Þar er margt sem má fjalla um og setja í samhengi. Tökum nokkur dæmi:
- Árið 2020 var til dæmis 37,6 prósent meiri raforkusala til gagnavera en til samtals allra heimila á Íslandi. Af þeirri raforku sem fór til gagnaveranna er stór hluti notaður til að grafa eftir rafmyntum.
- Það er ótrúleg staðreynd að Ísland notar árlega jafnmikið af kolum og Indland. Á sama tíma og stjórnvöld stefna að kolefnishlutlausu Íslandi árið 2040 hefur kolanotkun hér aukist um þriðjung undanfarin fimm ár. Ástæðan er gríðarleg notkun stóriðju, álvera og kísilmálmverksmiðja, á kolum.
- Við biðjum svo talnaglögga lesendur Viðskiptablaðsins að velta því fyrir sér að á sama tíma og við flytjum út ódýra raforku í formi stóriðjuvara þá flytjum við inn rándýrt jarðefnaeldsneyti, eða fyrir um það bil 100 milljarða króna á ári. Væri ekki skynsamlegra fyrir þjóðarbúið að taka það sem þarf í orkuskiptin af þessum 82 prósentum af orkuframleiðslunni, sem fara til stóriðju og gagnavera? Eins og staðan er núna vantar ekki orku til að uppfylla orkuskiptin fyrir 2030. Á næstu 17 árum losna auk þess raforkusamningar við stóriðjuna einn af öðrum, tímanlega fyrir vörður í orkuskiptum fram til 2040. Þannig mætti ná fullum orkuskiptum án þess að bæta við fleiri virkjunum.
- Til viðbótar væri fróðlegt að skoða mögulegan virðisauka af því nota okkar eigin raforkuframleiðslu til að færa sem mest af grænmetis- og blómaræktun til landsins. Í þeirri jöfnu er nauðsynlegt að hafa með störf sem skapast (á móti þeim sem hverfa í stóriðju) og aukið matvælaöryggi þjóðarinnar.
Förum með umræðuna um hvernig við notum sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar upp úr slitnum hjólförum. Við getum áorkað ýmsu með skapandi hugsun.