Skemmtidagskráin á Alþingi veldur ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn.

Hrafnarnir sjá að átta þingmenn úr röðum Framsóknar og Flokks fólksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu með Stefán Vagn Stefánsson, þingmann Framsóknar, fremstan í flokki. Þingmenn, vel þekktir fyrir lipra stjórn á fjármálum og afburðafærni í rekstri, hafa ákveðið að leggja land undir fót og umbylta orkugeiranum með stofnun Rafeldsneytisstofu ríkisins. Eftir glæstan árangur við rekstur rafeldsneytisframleiðslu til áburðarframleiðslu, er augljóst að þetta verður blómlegt ævintýri.

Nú bíða hrafnarnir þess að þingmenn beiti sér fyrir stofnun ríkisfyrirtækis til að beisla atómorkuna með köldum samruna og svo blasir við að ríkisrekstur á öreindahraðli yrði vafalaust til að styrkja stöðu brothættra byggða á landsbyggðinni.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 18. september 2024.