Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og orkuskipti úr rafmagni yfir í olíu eiga sér á Íslandi stað flykkjast áttatíu manns til Dúbaí til að taka þátt í loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og orkuskipti úr rafmagni yfir í olíu eiga sér á Íslandi stað flykkjast áttatíu manns til Dúbaí til að taka þátt í loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Það er rangt sem haldið hefur verið fram í fjölmiðlum að einkageirinn sendi þorrann af fulltrúum Íslands út. Langstærsti hlutinn er í Dúbaí á vegum skattgreiðenda eða fyrirtækja í eigu þeirra.
Hvaða erindi blaðafulltrúar Landsvirkjunar og OR eiga á slíka ráðstefnu er vandsvarað. Fleiri dæmi má taka. Vafalaust er nauðsynlegt að hafa ríkisstarfsmenn til taks á ráðstefnunni til að ræða þann mikla árangur sem hér hefur náðst í orkuskiptum. Árangur sem er byrjaður að ganga til baka enda er verið að skipta út grænni orku fyrir dísel.
Það ríkir orkuskortur í landinu. Hörður Árnason, forstjóri Landsvirkjunar, hefur varað við þessu og sagt græna orku – það sem allt snýst um á 28. loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna – uppselda hér á landi. Það er að segja sú græna orka sem nú þegar hefur verið beisluð. Tækifærin til frekari virkjunar grænnar orku eru feikileg en sökum andstöðu sumra stjórnmálamanna, hagsmunasamtaka og sveitarfélaga hefur ekkert gerst í þessum efnum í fjölda ára. Virkjunarleyfi velkjast um í kerfinu svo árum skiptir og mál þokast ekkert áfram.
Þetta á sér stað á sama tíma og stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að standa að orkuskiptum – það er að segja að skipta út jarðefnaeldsneyti yfir í græna orku. Þess í stað á öfug þróun sér stað. Þriðja veturinn í röð hefur Landsvirkjun kynnt að skerða þurfi rafmagn til fiskimjölsverksmiðja, fiskþurrkana og gagnavera vegna orkuskorts.
Í tilfellum fiskimjölsverksmiðjanna munu þær vera keyrðar áfram á dísilolíu. Eins og Magnús B. Jóhannsson framkvæmdastjóri benti á í aðsendri grein sem birtist í Viðskiptablaðinu 11. nóvember þá þurrkar einn vetur þar sem mjölbræðslur eru keyrðar á dísel út allan loftlagsávinning sem hefur hlotist af fjölgun rafmagnsbifreiða hér á landi.
Magnús bendir jafnframt á að leyfisveitingaferli vatnaafls- og jarðvarmavirkjana sé hreinlega óboðlegt. Meðaltímalengd verkefna í rammaáætlun er sextán ár. Til samanburðar nefnir
Magnús að það hafi tekið Landsnet tvö ár að koma 12 MW díselvaraflsstöð á koppinn. Það er ekki nema von að spurt sé hvort framtíðarorkunotkun á Íslandi verði knúin áfram af dísel.
Það er löngu tímabært að stjórnvöld hætti að berja hausinn við steininn og geri sér grein fyrir að dýrmætur tími hefur farið forgörðum vegna tafa á uppbyggingu orkuframleiðslu á undanförnum áratugum. Í minnisblaði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis- og orkuráðherra, sem sagt var frá í Morgunblaðinu í október er dregin fram dökk mynd af stöðu orkumála. Þar kemur fram að orkuskipti séu í óvissu vegna andstöðu sveitarfélaga við framkvæmdir, veikburða flutningskerfa og óvissu um virkjunarkosti í jarðvarma.
Í nýlegri úttekt sama ráðuneytis á stöðu hitaveitna kemur fram að flestar hitaveitur landsins sjá fram á aukna
eftirspurn eftir heitu vatni á næstu árum og erfitt verði að mæta þeirri eftirspurn.
Það er ekki bara sofandaháttur og óskilvirkt leyfisveitingakerfi sem hefur komið orkumálum Íslendinga í öngstræti. Ákveðin öfl berjast gegn aukinni framleiðslu á grænni orku til að standa undir orkuskiptum. Það er lykilatriði að frekari velsæld hér á landi og að íslensk stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar í orkumálum. Samtök á borð við Landvernd, sem setja sig á móti þessu, eru í raun að berjast fyrir því að lífskjör Íslendinga færist fjölda áratuga aftur í tímann.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, er ágætur fulltrúi þessara skaðlegu sjónarmiða. Í Silfrinu á mánudagskvöld talaði hann fyrir því að stjórnvöld ættu að fá erlendan sérfræðing til að meta orkuþörf landsins. Það þarf engan erlendan sérfræðing til þess. Hið frjálsa hagkerfi metur orkuþörfina frá degi til dags og staðreynd málsins er að umtalsverð eftirspurn er eftir grænni orku og hún á ekki eftir að minnka samhliða vexti og viðgangi hagkerfisins og orkuskiptum. Það er ábyrgðarhluti að standa í vegi fyrir þeirri þróun.
Leiðari Viðskiptablaðsins sem birtist í blaðinu 6. desember 2023.