Nú þegar degi er tekið að halla sprettur Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR upp og boðar enn og aftur mótmæli, kosningar og byltingar.
Fyrsta frétt í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 á mánudag var að verkalýðsforinginn boðaði mótmæli á Austurvelli að loknum sumarfríum og uppsögn kjarasamninga sökum þess að allir hafa brugðist Ragnari – Seðlabankinn, SA, búðareigendur og hvað þetta allt heitir. Hrafnarnir velta fyrir sér hvernig það geti eiginlega talist fréttnæmt að Ragnar Þór boði til mótmæla. Það væri frétt ef hann gerði það ekki.
En skemmst er frá því að minnast þegar Ragnar reyndi að setja nýtt drengjamet í lýðskrumi í fyrravor. Þá boðaði hann alla þá sem hafa „fengið nóg af einhverju“ eins og hann orðar það í herkalli sínu á samfélagsmiðlum á mótmæli við Austurvöll. Um fjörutíu manns svöruðu því kalli eins og frægt er orðið.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 31. júlí 2024.