Sátt Íslandsbanka við Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur orðið til þess að litlu hrunsölumennirnir fara með himinskautum og efnt hefur verið til Íslandsmóts í eftiráskýringum. Valgeir Magnússon leiðir keppnina en Guðmundur Heiðar Helgason er við hæla hans.
Hvað litlu hrunsölumennina varðar er Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í sérflokki eins og oft áður en hann og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokk fólksins, mynda sérstaklega öflugt teymi í þessum efnum. Í aðsendri grein á Vísi á miðvikudag skrifa þau eins og oft áður um spillinguna. Inntak greinarinnar er: Það er spilling og fólk er hrætt!
Hrafnarnir sjá að spillingin sé svo mikil að þau Ragnar Þór og Ásthildur Lóa hirða ekki einu sinni um að halda staðreyndum til haga. Þannig segir í greininni frá hetjulegri baráttu Guðrúnar Johnsen, efnahagsráðgjafa Ragnars, við spillinguna í Arion banka.
Í greininni segir: „Guðrún Johnsen varaformaður stjórnar Arion banka var vikið úr stjórn bankans daginn eftir að hún lagði fram tillögu um að rannsaka söluna. Fyrir störf sín fékk bankastjórinn Höskuldur 150 milljónir króna í starfslokagreiðslu.“
Hröfnunum finnst merkilegt að Ragnar og Ásthildur fjalla ekkert um hver hafi borið ábyrgð á 150 milljóna króna starfslokagreiðslu Höskuldar. Það var auðvitað efnahagsráðgjafi VR sem gegndi þá stöðu stjórnarformanns bankans. Hrafnarnir minnast þess að þegar hún var spurð út í málið þá hafi hún varið greiðsluna með því að segja að Höskuldur væri svo harður í horn að taka í samningaviðræðum.
Í frétt Vísis um málið frá 2019 segir:
„Breytingar á ráðningarsamningi Höskuldar voru gerðar í kjölfar þess að þáverandi stjórnarformaður bankans, Monica Caneman, steig til hliðar í maí 2017. Þá tók Guðrún, sem hafði áður verið varaformaður stjórnarinnar, við formennsku og gegndi hlutverkinu tímabundið frá maí til júní 2017. Leiddi hún vinnu stjórnarinnar við breytingarnar á samningi Höskuldar. Þær voru samþykktar samhljóða af öllum stjórnarmönnum bankans, meðal annars fulltrúa Bankasýslu ríkisins.“
Ragnar Þór brást hart við fréttum af starfslokagreiðslu Höskuldar og benti á að hún jafngilti lágmarkslaunum í 40 ár. „Þetta var greiðsla fyrir að hætta störfum vegna þess að afkoma bankans, undir hans stjórn, var undir væntingum,“ skrifaði hann á Facebook-síðu sína.
Ragnar Þór segist hafa verið meðvitaður um að Guðrún hafi setið í stjórn bankans þegar breytingar voru gerðar á ráðningarsamningi Höskuldar en segist ekki vera viss um hvenær bætt var við uppsagnarfrestinn eða „hver aðkoma Guðrúnar að því hafi verið.“