Rammaáætlun hefur loks verið samþykkt eftir að hafa verið lögð fram fjórum sinnum.
Seinagangur við afgreiðslu rammaáætlunar, sem virtist ætla að verða löggjafanum um megn, er ein helsta ástæða þeirra vandræða, sem Íslendingar standa að frammi fyrir í orkumálum. Vandræði sem hefði fullkomlega verið hægt að koma í veg fyrir. Engar haldbærar ástæður eru fyrir þeim töfum
aðrar en óþarfleg tillitssemi við flokksbrot Landverndar innan Vinstri grænna. Landvernd hélt þó áfram sínu hefðbundna frekjukasti og sagði rammaáætlun eins og hún var samþykkt einhvers konar sigur þeirra sem kallaðir eru “virkjanasinnar.” Sá sigur birtist nú í því að örfáum virkjunarkostum er þokað í biðflokk, en aðeins einum í nýtingarflokk, sem er vindorkuverkefnið í Búrfellslundi.
Fámennur hópur hefur tekið orkubúskap landsins í gíslingu. Þessi sami hópur hefur komist upp með háttsemi sína með því að með því að loka augunum fyrir orkuskorti Vestfjarða og vanda er snýr að afhendingaröryggi raforku á Norðausturlandi. Þorri fólks ekki fundið fyrir þessum tilteknu vandamálum,enda búsettur á höfuðborgarsvæðinu.
Það breytir ekki staðreynd málsins að landsvæði á borð við Vestfirði búa við ótrygga stöðu í orkumálum. Það er í landi þar sem gnótt virkjaðrar og óvirkjaðra raforku er fyrir hendi. Það er að segja, ef ráðamönnum lánast loks að reka skynsamlegri stefnu í orkumálum.
Þessi heimatilbúni skortur er tilkominn vegna skorts á fjárfestingu í innviðum og þeim óskiljanlegu töfum sem hafa orðið á framgangi rammaáætlunar. Þegar það blasir nú við gasprar sértrúarliðið um að þá þurfi nú bara að stöðva orkusölu í óþarfa eins og rafmyntagröft, nú eða minnka álframleiðsluna og ef út í það er farið. Bergmál þessarar skoðunar endurómar svo í sölum Orkustofnunar. Forsvarsmaður þeirrar ríkisstofnunar hefur á síðastliðnum mánuðum farið langt út fyrir hlutverk sitt svo að jarðar við stjórnsýslulegt vanhæfi. Æðsti yfirmaður stjórnvalds sem hefur umsjón með leyfisveitingum og eftirliti lögaðila á orkumarkaði á ekki að blanda sér í pólitíska stefnumótun um ráðstöfun auðlindarentu eða hafa skoðanir á því hversu mikil eða lítil raforkuframleiðsla á Íslandi eigi að vera og hvernig eigi að nota raforkuna.
Sjónarmið Landsverndar tekur ekki mið af þeirri staðreyndar að raforka er meðal stærstu útflutningsgreina Íslands og ein meginstoða efnahagslífs hér á landi. Útflutningur raforkunnar er í formi áls, kísils og járnblendis og skapar Íslandi gjaldeyristekjur. Þessi sam gjaldeyrir gerir okkur kleift að kaupa innfluttar vörur. Til dæmis rafknúin faratæki af ýmsu tagi. Ef Ísland tekur þá ákvörðun að láta af raforkusölu til orkusækins iðnaðar eru engar líkur á því að nægur gjaldeyrir verði til skiptanna til að flytja inn öll rafknúnu farartækin sem eiga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Það mætti í raun líkja þessu við að Ísland léti af innflutningi á matvælum, drægi úr útflutningi á sjávarafurðum og neytti þeirra innanlands í auknum mæli. Minni útflutningstekjur sætu eftir á Íslandi, sem þýddi að minna væri til skiptanna til að fjármagna innflutning, sem leiðir óumflýjanlega af sér skert lífsgæði á Íslandi.
Höfuðvandi ríkisstjórnarinnar í orkumálum liggur þarna, þar sem í stefnunni er bæði lofað landvernd og loftslagsátaki, orkuskiptum án þess að neitt sé í því gert. Til þess að Ísland geti staðið við eigin áform í loftslagsmálum, að ekki sé minnst á alþjóðlegar skuldbindingar, verður ekki hjá því komist að virkja óbeislaða orku landsins. Auðvitað verður að gera það með gát með virðingu fyrir náttúrunni. En það er vel gerlegt, eins og við þekkjum frá fyrri virkjunum. En þegar þetta fólk lætur eins og ekkert megi virkja, sama hversu vel það er gert, að helst eigi að landið að vera eins og fyrir landnám, þá er ljóst hvað það vill í raun og veru: Landauðn.