Húsnæðisskortur, hátt verð, skortur á leigubílum og rándýrar rútuferðir frá Keflavíkurflugvelli er meðal þess sem Týr hefði haldið að væru forgangsverkefni hins svokallaða innviðaráðherra.

En núna hefur Sigurður Ingi Jóhann brugðist við einu þessara verkefna og komið fram með frumvarp um leigubíla. Eins og farið var yfir fyrir stuttu í Viðskiptablaðinu er þetta frumvarp hrákasmíði.

Mbl.is ræddi við hinn svokallaða innviðaráðherra um leigubílafrumvarpið. Þar má segja að ráðherranum hafi tekist að afvegaleiða lesendur á mettíma.

Þar sagði Sigurður:

„Ég hef sagt það áður að frum­varpið er ekki lagt fram til þess að Uber eða Lyft geti komið til lands­ins en sam­kvæmt frum­varp­inu geta far­veiturn­ar þó komið til lands­ins ef þær upp­fylla sömu skil­yrði og leigu­bíl­arn­ir."

„Ef þær [farveiturnar] upp­fylla sömu skil­yrði og aðrir þá eru þær vel­komn­ar, það er eng­um bannað að koma."

Þetta er rangt. Frumvarpið er augljóslega samið með það að markmiði að koma í veg fyrir að farveitur komi hingað til lands.

Það sést best á fyrsta skilyrði frumvarpsins til að fá rekstrarleyfi:

Hefur lögheimili innan Evrópska efnahagssvæðisins og starfsstöð hér á landi sem er virk og traust. Frá þeirri starfsstöð skal starfseminni vera stjórnað og þar skulu öll grunnviðskiptaskjöl er varða reksturinn vera geymd og aðgengileg.

Starfsstöð á Íslandi er slík hindrun í vegi þess að Uber og Lyft myndu koma hingað að nánast útilokað er að það muni gerast. Til viðbótar er gerð krafa um löggildan gjaldmæli en rekstur farveitnanna byggist á því að gjaldmælarnir séu í forriti í síma bæði bílstjóra og viðskiptavinar.

Sigurður Ingi veit því, eins og allir sem hafa lesið frumvarpið, að það eru hrein ósannindi að farveiturnar séu velkomnar. Það sem verra er, er að ráðherrann segir ósatt vitandi betur.

Slagorð Framsóknarflokksins í síðustu kosningum var hvort ekki væri bara betra að kjósa Framsókn. Svarið við því er nei. Það væri miklu nær að kjósa vinstri flokk sem ekki er í dulargervi.

Meðan almenningur bíður í röð eftir leigubíl, stundum klukkustundum saman, þá getur hinn sami almenningur huggað sig við að Sigurður Ingi þarf aldrei að bíða eftir bílnum, ráðherrabílnum – sem er á kostnað skattgreiðenda.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Týr er skoðunardálkur Viðskiptablaðins og vb.is.