Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA) lætur ekki deigan síga í umfjöllun um tollalög og tollflokkun hér á landi. Í Viðskiptablaðinu 14. júlí sl. skrifar hann grein um tollflokkun og lýsir henni sem „… vandamáli í viðskiptum Íslands og Evrópusambandsins…“ sem skorað hefur verið á íslensk stjórnvöld að leysa með því að samræma tollflokkun milli Íslands og ESB. Með henni svarar hann grein undirritaðrar, „Blekkingarleikur Félags atvinnurekenda“, á sama vettvangi 7. júlí sl.
Það að tollskrá og skýringabækur ESB hafa ekkert gildi hvað tollflokkun varðar hér á landi kemur til af því að Ísland er sjálfstætt og fullvalda ríki. Í því felst að þrír þættir ríkisvalds hafa óskoraðan rétt til að beita fullveldisrétti þjóðarinnar. Þannig samþykkir Alþingi lög; framkvæmdarvaldið framfylgir lögunum og dómstólar dæma eftir lögunum.
Núverandi fyrirkomulag tollamála, sem er birtingarmynd þessa fullveldisréttar, veldur því vitanlega ekki að íslenska tollskráin verði þar með „…skálkaskjól fyrir íslensk stjórnvöld til að fara að skuldbindingum sínum um tollfrjáls viðskipti samkvæmt EES samningnum eða tvíhliða samningum við ESB,“ eins og segir í ályktun Íslensk-evrópska verslunarráðsins og framkvæmdastjórinn hefur eftir í grein sinni „Tollskráin sem hindrun“ í Viðskiptablaðinu þann 1. júlí sl.
Þessu til viðbótar má benda á margbreytileika tollskráarinnar – sumir kaflar hennar eru ítarlegri en aðrir. Svo dæmi sé tekið er tollskráin ítarleg í tilviki sjávarafurða, væntanlega í því skyni að þjóna íslenskum hagsmunum sem bezt og að afla sem gleggstra hagtalna.
Tollskráin verður því seint talin vera hvít eða svört heldur verða í henni grá svæði, ekki síst að teknu tilliti til þess að á hverjum degi koma fram á sjónarsviðið nýjar vörur og vinnsluaðferðir breytast. Þetta eðli tollskráarinnar er ekki „hindrun“ eins og fullyrt hefur verið af hálfu framkvæmdastjóra FA.
Eins og vikið var að í grein minni er Ísland aðili að Alþjóðatollastofnuninni og með því er tryggð aðild að alþjóðlegu samstarfi um tollamál. Á því er byggt hér á landi gagnvart öllum löndum, ekki aðeins aðildarríkjum ESB. Allt tal um að tollskráin sé „skálkaskjól fyrir íslensk stjórnvöld“, eins og gert er af hálfu FA og Íslensk-evrópska verslunarráðsins, er málflutningur sem stenst enga skoðun.
Framkvæmdastjórinn fer heldur ekki rétt með aðrar einfaldar staðreyndir í grein sinni. Í rökþroti sínu velur hann að fara í manninn en ekki málefnið og að draga stjórnmálaskoðanir mínar inn í sitt mál með því að segja mig vera stjórnarmann í Miðflokknum (ad hominem röksemdarfærsla). Þetta er rangt og kemur að auki tollamálum nákvæmlega ekkert við. Alnetið hefði fljótt getað upplýst um svo einfalda staðreynd með uppflettingu á heimasíðu flokksins. Enn og aftur fellur FA á prófinu.
Höfundur er verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni. Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 21. júlí 2022.