Hrafnarnir lásu í Morgunblaðinu að Lilja Alfreðsdóttir ætlar að svara ákalli Jóhannesar Skúlasonar og annarra forsvarsmanna Samtaka ferðajónustunnar um að skattfé borgaranna verði varið í að kynna Ísland sem áfangastað í erlendum fjölmiðlum.

Ferðaþjónustan hefur að undanförnu kvartað yfir skertri samkeppnisstöðu í samanburði við aðra áfangastaði. Lilja ætlar að bregðast við þessu með nýrri ferðamálastefnu og „umtalsverðri fjárfestingu til neytendamarkaðssetningar“, eins og það er orðað í frétt Morgunblaðsins. Hrafnarnir telja þetta algjört bruðl og galna meðferð á skattfé borgaranna.

Það skortir ekkert upp á kynningu á Íslandi sem áfangastað ferðamanna – það sýna gögn úr leitarvélum svo dæmi sé tekið. Ástæðan fyrir skertri samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar er einfaldlega sú staðreynd að raungengi krónunnar er alltof hátt og verðlagið með þeim hætti að fjöldi ferðamanna kjósa með fótunum og fara annað. Útgjaldaaustur og auglýsingaherferðir erlendis munu ekki breyta neinu um þá staðreynd.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 1. maí 2024.