Steinþór Pálsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, leiðir verkefnahóp til ráðgjafar Sigurði Inga Jóhannssonarfjármálaráðherra um úrvinnslu eignasafns ÍL-sjóðs.
Væntanlega hefur sjóðinn vantað lausafé með hraði í síðustu viku þegar hann seldi skuldabréf útgefin af Lánasjóði sveitarfélaga fyrir ríflega sex milljarða á yfir fjögurra prósenta ávöxtunarkröfu. Athygli vekur að útboðið fór fram viku fyrir boðað skuldabréfaútboð Lánasjóðs sveitarfélaga. Væntanlega hefur Óttar Guðjónsson framkvæmdastjóri Lánasjóðsins hugsað ÍLS-mönnum þegjandi þörfina.
En það sem vekur einnig athygli við þetta allt saman er að ríkið steig ekki inn í til að leysa væntanlega tímabundinn lausafjárvanda ÍLS. Sem kunnugt er þá tók ríkissjóður 230 milljarða lán hjá ÍLS meðan á heimsfaraldrinum stóð og honum hefði verið í lófa lagið að greiða inn á lánið. Hrafnarnir þekkja samt sérfræðinga á markaði sem segja það hafa aldrei komið til greina: Leikurinn sé gerður til þess að búa til tap í ÍLS, spara vexti fyrir ríkissjóð og láta svo lífeyrissjóðina takast á við tjónið.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 12. júní.