Kosningar eru á næsta leiti og forystufólk stjórnmálaflokka keppist við að sækja atkvæði og sýna kjósendum hvernig þau munu gera Ísland að besta landi í heimi.
Til þess að svo megi verða þurfa þau að setja samkeppnishæfni Íslands í forgang en hún hefur farið versnandi. Það er brýnt að stjórnmálafólk beiti sér fyrir hagfelldu rekstrar- og fjárfestingarumhverfi fyrir íslensk fyrirtæki og nú er svigrúm til breytinga. Tækifærin eru mýmörg; almennar skattalækkanir og einföldun skattkerfisins, einföldun og „afhúðun regluverks,“ sameiningar stofnana og einföldun leyfisveitingaferla, fjölgun og einföldun tvísköttunarsamninga og einföldun reglna um erlendar fjárfestingar.
Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir einföldun regluverks um árabil. Með einföldun regluverks atvinnulífsins geta fyrirtæki aukið samkeppnishæfni sína bæði innanlands og á alþjóðamarkaði. Þá er mikilvægt að leyfisveitingar og eftirlit með starfsemi fyrirtækja sé samræmt og ekki á höndum margra eftirlitsaðila. Ljóst er að mikil tækifæri eru í einföldun regluverks hérlendis enda mælist Ísland jafnan með eitt þyngsta regluverkið innan OECD. Því má segja að íslenskt atvinnulíf þjáist að einhverju marki af regluverkjum. Tökum dæmi um heilbrigðiseftirlit en Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur m.a. gert athugasemdir við ósamræmi í framkvæmd heilbrigðiseftirlits hérlendis.
Níu staðbundin stjórnvöld
Á Íslandi eru starfandi 9 staðbundin stjórnvöld sem sinna heilbrigðiseftirliti. Hvert eftirlitssvæði hefur sína eigin gjaldskrá og eru gjöld mismunandi eftir svæðum. Umhverfisstofnun og Matvælastofnun hafa yfirstjórn með heilbrigðiseftirlitunum ásamt því að sinna samræmingarhlutverki. Umhverfisstofnun heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Matvælastofnun heyrir undir matvælaráðuneytið.
Eftirlitsumdæmin 9 heyra því undir tvær stofnanir sem aftur heyra undir tvö ráðuneyti. Umhverfisstofnun og Matvælastofnun fara að auki með eftirlit og hafa sérstakar gjaldskrár fyrir það eftirlit. Þessi tilhögun getur hæglega leitt til þess að fyrirtæki fái mismunandi meðferð eftir því hvaða heilbrigðiseftirlitsumdæmi þau falla undir. Jafnvel getur sama fyrirtækið þurft að sæta ólíkum kröfum á mismunandi starfsstöðvum. Það er augljóst hversu kostnaðarsamt og flókið þetta fyrirkomulag er fyrir þá sem sæta og sinna eftirlitinu.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði starfshóp um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum sem skilaði skýrslu í ágúst 2023. Niðurstaðan var að tímabært væri að ráðast í heildstæða endurskoðun á núverandi kerfi og lagði starfshópurinn til þá breytingu að allt eftirlit með hollustuháttum og mengunarvörnum yrði hjá stofnunum ríkisins. Þannig yrði samræming tryggð.
Fráfarandi ríkisstjórn lánaðist ekki að hrinda þessum tillögum í framkvæmd. Samtök atvinnulífsins skora á stjórnvöld sem ná kjöri að láta sig þetta mál varða og gera nauðsynlegar breytingar á kerfinu. Það á ekki að skipta máli hvort veitingastaður eða verkstæði opni í Reykjavík eða Hafnarfirði, kröfurnar eiga að vera þær sömu.
Næsta ríksstjórn setji sér markmið
Framkvæmd heilbrigðiseftirlits er aðeins eitt dæmi um flókið og íþyngjandi eftirlit og regluverk á Íslandi.
Í alþjóðlegum samanburði er Ísland reglulega meðal neðstu ríkja þegar kemur að mælingum á reglubyrði á atvinnulífið. Ef við ætlum að halda áfram að sækja fram hérlendis og skapa meiri verðmæti og lífskjör duga engin vettlingatök. Það er brýnt að samræma heilbrigðiseftirlit en það er bara byrjunin. Á vettvangi Evrópu hefur nú verið sett markmið um að draga úr kostnaði heimila og fyrirtækja vegna íþyngjandi reglna um 25%. Æskilegt væri að næsta ríkisstjórn setti sér sambærilegt markmið um minni reglubyrði hér á landi til að lina regluverkina. Það myndi skjóta stoðum undir næsta vaxtarskeið Íslands.
Heiðrún Björk Gísladóttir er lögmaður á málefnasviði SA og fastafulltrúi SA og SI hjá BusinessEurope.