Í síðustu viku lauk CES tæknisýningunni í Bandaríkjunum, CES sem stendur fyrir Consumer Electronics Show er risaviðburður þar sem við sjáum oft tækninýjungar í fyrsta sinn. Þótt við getum ekki enn sagt til um hvort nýja 3000$ ofurgervigreindartölvan frá Nvidia, Roomba ryksuguna sem tínir líka upp sokkana þína eða gagnsæju sjónvörpin frá Samsung og LG verði eftirminnilegast frá þessu ári, getum við sagt að umfjöllun og umræða um sjálfkeyrandi bíla og þróun þeirra vakti athygli.

Hættan við sjálfkeyrandi bíla

Ég hef verið mjög skeptískur á sjálfkeyrandi bíla og það „hype” sem varð um þá fyrir nokkrum árum. Taldi líklegast að ef eitthvað væri, myndu þeir líklega auka á umferðarvandann. Fólk myndi kaupa sér aukabíl til að rúnta með börnin og losna þannig við skutlið og kröfur um aukið rými í borgarlandinu fyrir slíka bíla myndi gera borgina ómannvænlegri. Það er hætta á að sú sviðsmynd gæti raungerst.

Waymo nær forskoti

Núna er staðan þannig að Waymo leigubílaþjónustan sem er systurfyrirtæki Google undir Alphabet, hefur náð verulegri útbreiðslu í þremur stórborgum í Bandaríkjunum og stefnir á frekari útþenslu. Árið 2024 ók Waymo 4 milljónir greiddra ferða og síðasta haust birti Waymo gagnapakka þar sem kemur í ljós að á 53 milljónum eknum kílómetrum voru 81% færri slys þar sem loftpúðar sprungu út og 78% færri slys þar sem meiðsli urðu á fólki hjá Waymo en samanborið við sambærilegar ferðir þar sem fólk heldur um stýrið. Öryggissaga Waymo er þannig betri en keppinauta fyrirtækisins og okkar mannfólksins. En Waymo er langt í frá eina fyrirtækið sem er í þessum bransa, bara í Kaliforníu einni eru ríflega 30 fyrirtæki með leyfi til prófana og aksturs sjálfkeyrandi bíla.

Miðað við þróun og þroska tækninnar megum við búast við að innan áratugar verði þjónusta sjálfkeyrandi leigu- og deilibíla mjög algeng...

Hröð innleiðing

Það tók rúm 20 ár frá því að Ford T módelið kom fyrst fram árið 1908 þar til bílar voru orðnir nánast jafn margir og skráð heimili voru í Bandaríkjunum. Við höfum mörg dæmi um að ný tækni nái almannahylli mun hraðar en áður. Miðað við þróun og þroska tækninnar megum við búast við að innan áratugar verði þjónusta sjálfkeyrandi leigu- og deilibíla mjög algeng í fjölmennara þéttbýli í Bandaríkjunum, Kanda, Japan, Kóreu, Kína og jafnvel Evrópu.

Á endanum, þrátt fyrir almenna tregðu íslenskra stjórnvalda til að tileinka sér tækni og nýjungar, mun þessi tækni ná til Reykjavíkur. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því. Að einhverju leyti munu sjálfkeyrandi þjónustur koma í stað hefðbundinna almenningssamgangna og hefðbundni leigubílamarkaðurinn mun minnka mikið (og þ.a.l. hlustendum Útvarps Sögu).

Mun bílaeign minnka?

Það er hægt að sjá fyrir sér að almenn bílaeign minnki. Þeir sem það vilja og þurfa, haldi að minnsta kosti einum bíl á heimili til að komast í dægradvöl, langferðir eða í bústað en bílar tvö og þrjú verði óhagkvæmir og fólk verði síður með „innanbæjarbíl“. En sjálfkeyrandi bílar munu ekki leysa umferðarvandann, alls ekki, nema fólk nýti sér að vera fleiri en einn í hverjum bíl þegar það er að komast í og úr vinnu. Við þurfum að spyrja okkur að því hvort það sé líklegt. Við viljum ekki að göturnar fyllist að villuráfandi sjálfkeyrandi bílum bíðandi eftir að einhver velji þá til aksturs. En möguleikarnir sem þessi tækni býður upp ár er umtalsverð.

Erum við í takt við tímann?

Ég er ekki viss um að eftir 15 ár þegar við ætlum að vera komin með öflugt almenningssamgangnakerfi á höfuðborgarsvæðinu verði það í takt við tímann. Miðað við þróun erlendis þá má leiða að því líkur að verslun verði gjörbreytt, vörurnar komi til okkar í stað þess að við eltum uppi vörurnar. Eins verði það gjörbreytt hvernig við ferðumst um borgarlandið. Ef við ætlum ekki að vera pikkföst í umferðinni um alla eilíf verðum við að vera vakandi hvað er á sjóndeildarhring samgangna. Fagna tækninni og möguleikum hennar en gleyma því ekki um leið að borgin á að vera fyrir fólk.