Brynjar Níelsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritaði þarfa ádrepu í þetta blað í síðustu viku. Í greininni bendir Brynjar á að stjórnmálamenn keppist við að eyða kostnaðarvitund almennings sem svo leiðir til mikillar sóunar í ríkisrekstrinum.
Brynjar segir flesta ráðherra auka útgjöld í sínum málaflokkum á sama tíma og ríkissjóður er rekinn með tugmilljarða halla en á sama tíma þykjast þeir svo vera að berjast gegn verðbólgu. Það eina sem stjórnarandstaðan hefur til málanna að leggja eru tillögur um enn meiri útgjöld og enn hærri skatta.
Hægt er að taka undir áhyggjur Brynjars af þessari stöðu. Stundum virðist sem svo að þingmenn og aðrir þeir sem móta sér skoðun á stefnu í ríkisfjármálum hafi algjörlega gleymt þeirri staðreynd að viðvarandi hallarekstur leiðir til minni fjárfestingar og hærri skatta þegar fram í sækir. Þrátt fyrir að skuldastaða íslenska ríkisins sé enn ásættanleg hefur útgjaldahlið ríkisfjármálanna verið stjórnlaus um árabil. Það er áhyggjuefni að þverpólitísk sátt virðist ríkja um þá stefnu á þingi. Að óbreyttu endar það illa.
Ekkert bendir til þess að þetta komi til með breytast. Frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra tók við völdum veturinn 2017 hafa útgjöld ríkissjóðs aukist um 433 milljarða króna. Ríkissjóður hefur verið rekinn viðstöðulaust með halla frá árinu 2019 og ekki er útlit fyrir að það breytist á næstu árum.
Á sama tíma virðast engar takmarkanir á hugmyndaauðgi stjórnmálamanna þegar kemur að aukningu ríkisútgjalda. Stofnun nýrrar ríkisóperu, margföldun listamannalauna, þjóðarhöll og stofnun þjóðarsjóðs sem á að byggja upp með arðgreiðslum ríkisfyrirtækja sem fram til þessa hafa runnið í hítina og gjaldfrjálsar máltíðir handa grunnskólanemum. Hér eru aðeins nefnd nokkur dæmi – af nægu er að taka. Síðan furða menn sig á því að verðbólguvæntingar á markaði séu þrálátlega háar.
Að einhverju leyti hefur mikill kraftur í íslenska hagkerfinu og mikill hagvöxtur á undanförnum árum veitt þeim sem stýra ríkisfjármálum skálkaskjól. Mikil aukning skatttekna vegna vaxtar í hagkerfinu hefur dulið þessa miklu útgjaldaaukningu ríkisstjórnarinnar í valdatíð sinni.
Warren Buffett þreytist ekki á því að minna fólk á að það er ekki fyrr en í útfalli öldunnar að í ljós kemur hverjir það voru sem syntu naktir. Ágætt er að hafa það bak við eyrað nú þegar öll merki eru um að flóð sé að breytast í fjöru í efnahagslegum skilningi.
Raungengi íslensku krónunnar hefur verið hátt undanfarin misseri og langt yfir langtímameðaltali. Þetta endurspeglar meðal annars miklar launahækkanir umfram framleiðniaukningu. Þrátt fyrir að nýgerðir kjarasamningar á almenna markaðnum hafi ekki verið jafn innistæðulausir og þeir sem runnu úr gildi fyrr í vetur eru þeir líkast til of dýrir fyrir íslenskt efnahagslíf.
Hátt raungengi þrengir að útflutningsgreinum sem svo á endanum hefur áhrif á skattgreiðslur þeirra í ríkissjóð. Ferðamálafrömuðir eru nú þegar farnir að vara við því að samdráttur kunni að verða í greininni í ár vegna þess hversu dýr áfangastaður Ísland er orðinn.
Sagan kennir okkur að raungengið er fljótt að leiðréttast og það mun draga úr innflutningi og minnka einkaneyslu á komandi misserum. Þetta mun hafa umtalsverð áhrif á skatttekjur ríkissjóðs. Hinn glórulausi hallarekstur og ósjálfbærni hans mun þá verða öllum augljós.
„Það er nóg til“ er viðkvæði margra þegar kemur að ríkisbúskapnum. Þessi hugsun felur í sér þá fráleitu og stórhættulegu hugsun að tekjur heimila og fyrirtækja til að skattleggja séu ótakmarkaðar.
Því fyrr sem stjórnmálamenn gera sér grein fyrir þessu og á þörfinni fyrir gagngerri endurskoðun ríkisútgjalda og forgangsröðun því betra. Þórdís Kolbrún Reykfjörð fjármálaráðherra gerir sér grein fyrir þessu ef marka má ummæli í tengslum við útspil ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Brýnt er að sem flestir fylki sér á bak við þá réttmætu skoðun.
Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist í blaðinu sem kom út 3. apríl 2024.