Í Viðskiptablaðinu í síðustu gerði Óðinn að umtalsefni tvennt. Grein Konráðs Guðjónsonar efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar og hlaðvarp Sjálfstæðisflokksins.

Mikilvægasta atriðið, að mati Óðins, í pistlinum var staðhæfing Konráðs að ríkisútgjöld hafi aðeins vaxið um 3% frá árinu 2017. Þegar Óðinn tekur tillit til verðbólgu þá hafa útgjöld ríkisins samkvæmt ríkisreikningi, án vaxtakostnaðar, hækkað um 43,7% árin 2017-2023.

Konráð ákveður, af óskiljanlegum ástæðum, að taka launakostnað ríkisins til hliðar í grein sinni. En jafnvel þó Óðinn geri það stemmir reiknisdæmið ekki. Það væri auðvitað mikið gagn í að Konráð útskýri þetta betur því Óðinn vonar í þetta sinn að hann hafi rangt fyrir sér.

Pistilinn er hér á eftir.

Í Viðskiptablaðinu í síðustu gerði Óðinn að umtalsefni tvennt. Grein Konráðs Guðjónsonar efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar og hlaðvarp Sjálfstæðisflokksins.

Mikilvægasta atriðið, að mati Óðins, í pistlinum var staðhæfing Konráðs að ríkisútgjöld hafi aðeins vaxið um 3% frá árinu 2017. Þegar Óðinn tekur tillit til verðbólgu þá hafa útgjöld ríkisins samkvæmt ríkisreikningi, án vaxtakostnaðar, hækkað um 43,7% árin 2017-2023.

Konráð ákveður, af óskiljanlegum ástæðum, að taka launakostnað ríkisins til hliðar í grein sinni. En jafnvel þó Óðinn geri það stemmir reiknisdæmið ekki. Það væri auðvitað mikið gagn í að Konráð útskýri þetta betur því Óðinn vonar í þetta sinn að hann hafi rangt fyrir sér.

Pistilinn er hér á eftir.

Ríkishagfræðingur á villigötum?

Óðinn fjallaði í síðustu viku um afhroð Íhaldsflokksins í Bretlandi og benti á að nákvæmlega eins færi fyrir Sjálfstæðisflokknum í næstu kosningum, hvenær sem þær verða, nema eitthvað verulegt breytist.

En afneitun Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins virðist vera algjör. Forsætisráðherrann heldur því statt og stöðugt fram að ríkisfjármálin hafi dregið úr verðbólgu en ekki aukið hana. Vandinn við þessa kenningu er sú að ekki nokkur lifandi maður trúir henni.

Nema einn. Konráð Guðjónsson efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar til tveggja mánaða. Óvíst er hvort hann trúi því sem hann segir en hann fær að minnsta kosti borgað fyrir það.

Forsætisráðherrann sendi efnahagsráðgjafann út á ritvöllinn um síðustu helgi þar sem hann útskýrði hagspeki forsætisráðherrans og hvað Milton Friedman meinti raunverulega.

Rétt eins og Jón Ásgeir forðum vill Bjarni Benediktsson heldur að reiðin beinist að Seðlabankanum en sjálfum sér.

***

„Ráðviltur ráðgjafi“

Ásgeirs Daníelssonar fyrrverandi forstöðumaður á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands svaraði grein Konráðs í greininni Ráðviltur ráðgjafi ríkisstjórnar.

Stefnan í ríkisfjármálunum hefur áhrif á hlutdeild ríkisins í efnahagsstarfseminni, en af því að hún hefur ekki áhrif á peningamagnið og gert er ráð fyrir að hún hafi ekki áhrif á greiðsluvenjur að meðaltali (þ.e. umferðahraða peninganna) og ekki áhrif á umfang efnahagsstarfseminnar hefur hún ekki áhrif á verðbólguna. Þetta breytist ef við sleppum peningamagnsjöfnunni og horfum í þess stað til Phillips-kúrvu með verðbólguvæntingum. Þá veldur aukning í starfsemi ríkisins aukinni eftirspurn og framleiðsluspennu sem svo knýr áfram verðbólgu. Þannig ganga málin fyrir sig í báðum þjóðhagslíkönum Seðlabankans.

***

Einkamarkaðurinn nær dauða en lífi

Staðan er sú í íslensku efnahagslífi að einkamarkaðurinn er eins og krabbameinssjúklingur sem dælt hefur verið í eitruðum kokteil í þeirri von að drepa meinið. Eftir því sem vextirnir haldast lengur háir er vonin minni um að sjúklingurinn hafi það af.

Ríkismarkaðurinn er hins vegar sprelllifandi og þar eyða menn lánspeningum af miklum krafti.

Um 25-30 milljarðar fara á ári í Landspítalann. Spítala sem átti að kosta 60 milljarða en stökkbreyttist í 200 og eitthvað milljarða framkvæmd. Óðinn veit ekki hver talan er nákvæmlega í dag en veit með vissu að þeir sem stjórna framkvæmdinni vita það ekki heldur. Um fimm milljarðar fara í endurbyggingu á Hótel Sögu.

Tíu milljarðar fara í að stytta hringveginn í nágrenni Hornarfjarðar. Þetta er í kjördæmi formanns Framsóknarflokksins en það er huggun harmi gegn að reiði framsóknarmanna út um allt land er svo mikil í garð formannsins að framkvæmdin er næstum þess virði.

***

3% eða 43,7%?

Það sem kom Óðni helst á óvart í grein Konráðs voru eftirfarandi orð.

Staðreyndir málsins eru þær að þegar tekið hefur verið tillit til verðbólgu og mikilla launahækkana, sem byggja í grunninn á stefnumarkandi samningum á almennum vinnumarkaði, nemur raunútgjaldavöxtur ríkisins 3% frá árinu 2017 - 0,4% á ári. Það eru öll ósköpin.

Það hefði verið gagnlegt að fyrir okkur sem viljum trúa, en trúum ekki, að fá að sjá útreikning ríkishagfræðingsins.

Árið 2017, þegar núverandi vinstri stjórn tók við, voru útgjöld ríkisins, án fjármagnsgjalda, samkvæmt ríkisreikningi 711 milljarðar króna á verðlagi ársins og 967 milljarðar króna á verðlagi ársins 2023. Samkvæmt ríkisreikningi 2023 námu gjöldin 1.390 milljörðum króna. Raunhækkun ríkisútgjalda nam því 43,7% frá árinu 2017 til ársins 2023.

Einhverra hluta vegna vill efnahagsráðgjafinn taka launakostnað út fyrir sviga. Rétt eins og Steingrímur J. Sigfússon fann upp nýyrðið frumjöfnuður til að geta sleppt vaxtakostnaði ríkisins. Bjarni Benediktsson tók upp þá stefnu Steingríms eins og því miður svo margar aðrar.

Starfsmannakostnaður ríkisins árið 2017 nam 252 milljörðum króna sem eru 343 milljarðar á verðlagi ársins 2023. Starfsmannakostnaður árið 2023 nam 361 milljarði króna. Árið 2023 og hafði þá hækkað um 5,4% umfram verðlag.

Óðinn er engu nær og væri gagnlegt að Konráð útskýrði tölur sínar þegar hann svarar áhlaupi Ásgeirs Daníelssonar.

***

Enn einn ríkisfjölmiðillinn

Óðni var bent á að ríkisrekin skrifstofa Sjálfstæðisflokksins í Valhöll hafi opnað hlaðvarpsstöð sem nefnist Hægri hliðin. Það var nefnilega ekki nóg að flokkurinn hafi ríkisvætt alla fjölmiðla í landinu og stóraukið framlög til Ríkisútvarpsins.

Þarna eru mörg ágæt viðtöl að finna og spurning hvort eitthvað af því fólki sem þar er sé ekki tilbúið að snúa til baka í stjórnmálin.

Má þar nefna Friðrik Sophusson og Árna Mathiesen. Ríkisfjármálin eru Óðni hugleikin og var hrein unun að hlusta á fyrrverandi fjármálaráðherrana tvo fjalla um hvaða breytingar voru gerðar í tíð þeirra á ríkisfjármálunum. Hallalaus fjárlög, lægri skattar, betri áætlanir, aðhald er meðal þeirra orða sem hafa ekki heyrst allt of lengi í sölum Valhallar.

Þegar Óðinn hlustaði á þættina velti hann fyrir sér hvort stofnun ríkisfjölmiðilsins í Valhöll væri liður í því að hreinsa til í Valhöll. Að þetta væri hallarbylting.

Það er nefnilega svo að allir þeir sem hlusta á viðtalsþættina við fjármálaráðherrana tvo sjá hversu illa hefur verið haldið á málum síðustu ár. Alveg óskaplega illa.