Að gefnu tilefni vill Týr árétta að álitaefnin varðandi kaup á Landsbankans á TM snúast ekki um hvenær einhver upplýsti einhvern um eitthvað og annað í þeim dúr. Nei, álitaefnin snúa að eignarhaldi ríkisins á bankanum og þau vandamál sem það skapar.

***

Það er útilokað að einkafyrirtæki hefði ráðist í sambærilega og jafn stefnumótandi fjárfestingu og kaup Landsbankans á TM eru án þess að um hana væri fjallað með formlegum hætti á vettvangi stjórnar.

Þessi staðreynd endurspeglast meðal annars í fréttum af því að stjórnendur Íslandsbanka lögðu líkt og Landsbankinn tilboð í TM en með fyrirvara um samþykki stjórnar.

Slíkt hvarflaði ekki að stjórnendum Landsbankans. Eignarhald ríkisins á bankanum leiðir til þess að þeir líta svo á að rekstur bankans komi hluthafanum ekkert við.

Bankastjórinn sendi hreinlega fjármálaráðherranum tóninn þegar sá síðastnefndi vogaði sér að segja skoðun sína á kaupunum.

***
Þetta er eðli ríkisfyrirtækja sem starfa á samkeppnismarkaði. Þau líkjast frekar starfsmannafélögum en hefðbundnum hlutafélögum. Markmið rekstrarins er fyrst og fremst að koma til móts við þarfir starfsmanna en ekki að ná arðsemismarkmiðum fyrir eigandann eða veita góða þjónustu.

Ríkisútvarpið er glæsilegt dæmi um þetta. Þegar Týr hélt að sjálfhverfan í þeirri stofnun gæti ekki orðið meiri sá hann fréttir um nýjan þátt: þátturinn snýst um að starfsmaður ríkisrekna miðilsins heimsækir fólk sem hann var leiðinlegur við þegar hann var tvítugur og reynir að bera kápu á klæðin.

Þar sem Týr fer ekki með gamanmál skal látið óhreyft að rifja upp sambærilega afrek fyrirtækja á borð við Isavia, Íslandspósts og ÁTVR í þessu samhengi.

Þetta er vafalaust ágætt fyrir þáttarstjórnandann en hefur nákvæmlega enga skírskotun til skattgreiðenda sem borga þessari stofnun sex milljarða ári að ekki sé minnst á annan kostnað sem tilvist hennar veldur þeim.

***

Þessu tengt: Á dögunum var ekki vinnufriður í nágrenni við turninn í Borgartúni. Fjöldi borgarstarfsmanna safnaðist saman fyrir utan bygginguna og dansaði og dillaði sér við háværa tónlist plötusnúðs. Gott ef Tralli trúður hafi ekki troðið upp. Meðan á þessu stóð reyndi fólk sem þiggur laun frá einkafyrirtækjum að sinna skyldum sínum.

Hver var ástæðan fyrir þessum mikla fögnuði? Jú, starfsmenn borgarinnar voru að fagna því að mottumars væri genginn í garð!

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.