Fyrir ári síðan birti Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambandsins, grein á heimasíðu samtakanna. Í þeirri jólakveðju gagnrýndi hann ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa ekki hrint stefnumálum Samfylkingarinnar í framkvæmd: Hækka skatta á fjármagnstekjur einyrkja og gamalmenna og á fyrirtæki sem ASÍ og Samfylkingunni er illa við í útvegi og ferðaþjónustu.
Nú, einu ári síðar, er verið að mynda nýja ríkisstjórn um þessar skattahækkanir sem Finnbjörn saknaði svo mjög á aðventunni í fyrra. Það er að gerast í boði Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og það ætti að vera öllum þeim sem gengu út frá því að Viðreisn talaði máli atvinnulífsins, og skildi mikilvægi sanngjarnra rekstrarskilyrða, mikil vonbrigði. Týr telur einsýnt að þessi ríkisstjórn með sínum skattahækkunum muni reynast atvinnulífinu dýrkeypt.
Tý hefur verið bent á að starfsmenn ASÍ eigi beinlínis fulltrúa í vinnuhópunum sem vinna að gerð málefnasamnings Flokks fólksins, Samfylkingar og Viðreisnar. Það ætti kannski ekki að koma á óvart. Hagfræðingur samtakanna stökk fram á ritvöllinn í kosningabaráttunni þegar sótt var að Samfylkingunni og bent á að allt tal um lokun „ehf-gatsins“ svokallaða væri ekkert annað en skattahækkun á einyrkja, hárgreiðslufólk og rafvirkja svo dæmi séu tekin.
Eins og málin blasa við Tý er hreinlega verið að mynda ríkisstjórn Alþýðusambandsins. Týr hefur heyrt að ljóst sé að verkalýðsforkólfurinn Ragnar Þór Ingólfsson gangi út frá því sem vísu að hann verði einn af ráðherrum Flokks fólksins auk Ingu Sæland. Hvernig sem á það er litið hlýtur hann einna helst koma til greina sem ráðherraefni flokksins. Hann er fyrsti varaforseti ASÍ. Ekki minnka áhrif sambandsins innan ríkisstjórnarinnar við það.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, þingmaður Samfylkingarinnar, er enn formaður Rafiðnaðarsambandsins og þriðji forseti ASÍ. Hann er í innsta kjarna þeirra þingmanna sem koma að gerð málefnasamnings væntanlegrar ríkisstjórnar.
Þrátt fyrir að spunameistarar slengi valkyrjuheitinu á stjórnarmyndunarviðræðurnar og reyni þar með að telja almenningi að hér sé eitthvað nýtt og ferskt á ferðinni er það ekki raunin. Það er verið að mynda ríkisstjórn um pólitískar áherslur ASÍ og það mun ekki gefast betur en í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, en hún stendur ekki síður undir
valkyrjunafngiftinni.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.