Skynsamlega upp sett skattkerfi hefur ekki áhrif á ákvarðanatöku einstaklinga um það hvað þeir telja skynsamlegt fyrir sig hverju sinni.

Auðvitað eru frávik frá þessu þegar pólitískur vilji er sérstaklega til að hvetja, eða eftir atvikum letja, til tiltekinna athafna. Almenna ætti fólk hins vegar ekki að þurfa að fletta upp í skattalöggjöfinni áður en það velur sína leið.

Þetta er ekki tilfellið fyrir fólk sem geymir sparnað sinn á hlutabréfamarkaði.  Tekjur af slíkum sparnaði eru skattlagðar í 22% hlutfalli, eins og aðrar fjármagnstekjur.

Eitt einkenna sparnaðar í formi hlutafjáreignar er að verðmæti getur verið misjafnt og breytingum háð.  Því geta þeir sem spara í þessu formi talið fé sitt betur geymt í einu félagi A frekar en félagi B og öfugt. Núgildandi reglur eru þannig að ef hlutafé í A hefur hækkað í verði þegar einstaklingur vill frekar fjárfesta í B þá kallar slík ákvörðun á skattgreiðslu.  Greiddur er 22% skattur af hækkun hlutafjárins frá kaupum að sölu.

Kerfið gerir það að verkum að ef einstaklingur vill selja í einu félagi og kaupa í öðru þá þarf að taka skatt með í reikninginn. Heildar sparnaðurinn við sölu er hærri fjárhæð, sem nemur skatti af söluhagnaði, en verður í því félagi sem vilji er til að kaupa.

Skattheimtan stýrir ákvörðunartöku

Skattkerfið er ekki hlutlaust við val á því hvort viðkomandi á áfram í A eða hvort keypt er í B. Þvert á móti gerir kerfið það að verkum að skynsamur sparifjáreigandi er lattur til þess að gera breytinguna og þarf að taka skattgreiðsluna sem leiðir af henni með í reikninginn við ákvörðunartöku.

Alþingi ákveður hvernig fyrirkomulagið er.  Einföld leið til að breyta þessu, þekkt í lögum um tekjuskatt til áratuga í ýmsu samhengi, er að skattleggja ekki hagnaðinn af hlutafjáreigninni strax.  Ekki fyrr en viðkomandi einstaklingur ákveður endanlega að hætta að spara í þessu formi og selur hlutafjáreign sína.  Það gerist t.d. þannig að ef hlutafé í A var upphaflega keypt á 100 og selt á 200 til að kaupa í B þá telst stofnverð í B ekki 200 heldur 100.  Ef vel gengur og B er svo selt á 300 án þess að annað hlutafé sé keypt í staðinn þá greiðir seljandinn 22% skatt af 200 í heildarhagnað (300 – 100) eða 44.

Ef sömu tölur eru notaðar í óbreyttu kerfi þá er fyrst greiddur 22% skattur af 100 (200 – 100) og endurfjárfestingin því ekki 200 heldur 178.  Sambærileg hækkun á gengi leiddi þá til endalegrar sölu fyrir 267 en ekki 300 þar sem höfuðstóllinn rýrnaði sem nam skattinum sem greiddur var í millitíðinni.  Við endanlega sölu á 267 er svo greiddur 22% skattur af 89 (267-178) eða 19,58.

Að óbreyttu væri því samtals greiddur skattur sem nemur 41,58 og ávöxtun fjárfestisins eftir alla skatt er 147,42. Ef kerfinu væri hins vegar breytt þannig að einstaklingurinn gæti endurfjárfest öllu söluandvirðinu væri greiddur skattur í sama dæmi 44 og ávöxtun eftir alla skatta 156.

Krefisbreyting sem allir hagnast á

Þannig græðir bæði ríkissjóður og viðkomandi einstaklingur á breyttu kerfi í þessu dæmi. Það er full ástæða til þess að halda því til haga að ef forsendum er breytt, t.d. þannig að tap verður af seinni fjárfestingunni, þá geta tölurnar breyst verulega.  Þá taka tölurnar ekki tillit til tíma, þ.e. ríkið fær skattgreiðslur sínar fyrr í núverandi kerfi heldur en ef því væri breytt.

Hins vegar yrði svona breyting til þess að einstaklingar gætu tekið ákvarðanir um það hvað þeim finnst skynsamlegast hverju sinni án þess að skattareglur skekki þá ákvörðun.  Það hlýtur að teljast æskilegt.  Að sama skapi leiðir núverandi kerfi til þess að hvati er fyrir hendi til þess að stofna einkahlutafélag utan um sparnað sem þennan því slíkt félag getur einmitt selt og keypt hlutafé án þess að til skattlagningar komi á milli.  Það hefur hins vegar í för með sér kostnað og fyrirhöfn sem varla er ástæða til að hvetja til.

Stígum skrefið til fulls

Nú vill þannig til að þingið var með einmitt þetta álitaefni til skoðunar á síðasta ári. Því miður var einungis bætt úr núverandi ástandi fyrir þröngan hóp einstaklinga sem hefur fjárfest í sprotafyrirtækjum og við mjög sérstakar aðstæður.  Almennt væri um að ræða smærri fyrirtæki sem ekki eru skráð á markað. Þar hefur þingið því stigið lítið skref í rétta átt en alls ekki að því er varðar almenna fjárfesta í öðru óskráðu eða skráðu hlutafé.

Undirritaður telur fulla ástæðu til þess að bæta úr þessu. Leiðirnar til þess eru þekktar og þingið hefur notað þær oftar en einu sinni – síðast í fyrra. Skattareglur eiga ekki að gera það að verkum að almenningur sem í einu orðinu er hvattur til sparnaðar í hlutafé sé í hinu orðinu skattlagður út af því einu að ákvörðun er tekin um að sparnaðinum sé betur komið í hlutafé annars félags en í upphafi.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 16. júní 2022.