" Það er verið að ruglast á því að vera róttækur og vera kjaftfor. Það er keppni í því að vera sem kjaftforastur til að vera misskilinn sem róttækastur og þegar þú vegur að eigin félögum ertu búinn að vinna róttækniskeppnina.“ Þessi orð lét Drífa Snædal falla í viðtali við Ríkisútvarpið eftir að hún kynnti um afsögn sína úr forsetastól Alþýðusambands Íslands.

Hrafnarnir telja þessi ummæli Drífu vera skorinorðustu gagnrýni sem komið hefur fram á þá verkalýðspólitík sem Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveig Anna Jónsdóttir hafa rekið í VR og Eflingu á undanförnum árum. Drífa verður seint sökuð um hafa verið mélkisuleg í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins. Þvert á móti. Þar af leiðandi bera hrafnarnir kvíðboga fyrir komandi kjarasamningum þegar félagi Ragnar og félagi Sólveig hafa náð fullum undirtökum í ASÍ eins og allt virðist stefna í.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 11. ágúst 2022.