Þær hörmungar sem rússnesk stjórnvöld hafa valdið sjálfstæðri nágrannaþjóð í Úkraínu eru átakanlegar.

Alþjóðasamfélagið hefur fordæmt framferði Rússa og viðskiptaþvingunum hefur meðal annars verið beitt. Af fjölmiðlaumfjöllun mætti skilja að engin málsmetandi þjóð vildi eiga viðskipti við Rússa, ef frá eru talin viðskipti með lífsnauðsynlegt gas.

Færeyingar endurnýjuðu nýverið tvíhliða samning við Rússa þar sem ríkin skiptast á fiskveiðiheimildum í lögsögu hvors annars. Færeyingar láta Rússum í té bæði kvóta og aðgang til veiða á kolmunna, makríl og norsk-íslenskri síld. Á móti fá Færeyingar þorskkvóta í rússneskri lögsögu. Ekki hefur annað komið fram en að rússnesk skip fái, líkt og undangengin ár, að landa afla í færeyskum höfnum og kaupi þar þjónustu af heimamönnum.

Rússnesk skip stunda einnig veiðar í norskri lögsögu. Rússnesku skipin fá jafnframt að koma til hafnar í Noregi, landa þar afla og kaupa margvíslega þjónustu.

Bretar kaupa mikið magn af fiski af Rússum. Um mitt sumar hækkuðu bresk stjórnvöld tolla á rússneskan fisk í 35%. Þessi hækkun tolla hefur lítil áhrif haft, ef frá eru talin áhrifin á pyngju breskra neytenda, og rússneskur fiskur er enn ráðandi á markaðinum.

ESB undanskilur meðal annars þorsk og ufsa frá innflutningsbanni á rússneskar sjávarafurðir. Um fjórðungur þess ufsa sem seldur var til ESB árið 2021 var rússneskur og annað eins kom frá Kína. Ufsi frá Kína á jafnan rússneskan uppruna. Hann er fluttur frá Rússlandi til vinnslu í Kína og þaðan er hann seldur til fyrirtækja innan ESB. Þrátt fyrir stríðið náði innflutningur á ufsa frá Rússlandi hæstu hæðum á fyrri helmingi þessa árs.

Eðlilega hafa margir efasemdir um gagnsemi viðskiptaþvingana almennt. Efinn verður þó enn meiri þegar þvinganirnar virðast að mestu til dyggðaskrauts.